sunnudagur, 6. júlí 2008

Muesli stykki

Ég hef átt í erfiðleikum með að finna mueslistykki sem við getum notast við. Ég hef keypt Wallaby stykkin handa börnunum og finnst þeim þau góð. Þau eru bæði með jógúrt húðuð sem eru á bannlista og önnur sem eru ekki húðuð. Ég sjálf má ekki fá þau því sojaóþol hefur verið að koma í ljós og mér finnst alltaf skemmtilegra að við getum öll borðað sama matinn. Því hef ég búið til mín eigin.

Hráefni:
2 bollar kókosmjöl
1 bolli Hirsi flögur
1/2 bolli Quinoa flögur
1 og 1/2 bolli rúsínur
2 bollar sólblómafræ
1/3 bolli sesam fræ
3/4 bollar jarðhnetur (Ég nota saltlausar, set þær í poka og brýt frekar smátt með kökukefli)
1/2 bolli þurrkaðir ávextir
1/2 tsk salt
1 bolli hunang
1 tsk vanilla
1/2 bolli hnetusmjör


Aðferð:

Hrærið saman hunangi, vanillu og hnetusmjöri í skál. Blandið restinni af hráefnunum saman við. Setjið bökunarpappír í stórt eldfast mót, berið olíu á hendurnar á ykkur og setjið blönduna í mótið. Ýtið blöndunni þétt niður. Bakið við 135 gráður Celsíus í 50-60 eða þar til gullið brúnt. Fjarlægið þá úr ofninum og þjappið aftur niður. Leyfið þessu að kólna aðeins og skerið svo í bita, setjið í litla plastpoka og þá eruð þið með litla snarl poka til að grípa með ykkur ef þið eruð að skreppa eitthvað. Geymið annars í loftþéttu íláti.


Engin ummæli: