mánudagur, 27. október 2008

Smalabaka

1 stór laukur, saxaður
3-4 stórar gulrætur, rifnar
c.a 500 gr hakk
200-400ml vatn
1 msk olía
1 súputeningur
krydd eftir smekk, ég hafði þetta einfalt og notaði svartan pipar og ekkert annað.

c.a 500 gr soðnar kartöflur, flysjaðar.
1-2 msk olía
smá salt og pipar

Steikjið laukinn við miðlungshita þar til hann er orðin hálf glær, bætið þá gulrótunum við og steikjið áfram í nokkrar mínútur. Hellið þessu í pott og bætið við vatni og súputening.
Steikið hakkið og bætið við í pottinn kryddið og leyfið þessu að malla.
Ég byrja á c.a 2 dl af vatni og bæti við smá vatni eftir þörfum ef mér finnst þetta of þurrt.

Stappið kartöflurnar með olíunni og salt og pipar. Ef þið eruð með soðnar kartöflur með matnum daginn áður þá er fínst að sjóða aukaskammt af kartöflum þá til að notast við í þennan rétt.

Þegar kjötblandan hefur fengið að malla í allaveganna korter en má alveg leyfa henni að malla alveg upp í klukkutíma eða svo (bara muna að bæta við vatni) hellið henni þá í ofnfast mót. Setjið kartöflustöppuna yfir þannig að hún þekji kjötblönduna að mestu leyti. Setjið inn í 200 gráðu heitan ofn í c.a 20 mínútur eða þar til kartöflustappan er orðin gullin að ofan.

Berið á borð með grænmeti að eigin vali.

fimmtudagur, 23. október 2008

Möndlumjólk

Möndlumjólk er mun hollari en hrísmjólk, hrísmjólk inniheldur litla næringu en möndlumjólkin gerir það aftur á mót. Hún er gífurlega einföld að gerð:

Hlutföllin eru:
1 hluti möndlur (dl, bolli, hentugt glas)
4 hlutar vatn

Best er að láta möndlurnar liggja í bleyti einhvern tíma fyrst, ég læt þær stundum liggja í bleyti inn í ísskáp yfir nótt, þá get ég klárað að gera hana um morgunin og hún er samt köld.
Vatninu og möndlunum er hent í blender og honum skellt af stað. 2-5 mínútur, fer eftir hve lengi þær lágu í bleyti.
Ég legg síðan tusku (keypti bleiju tuskur sem ég nota eingöngu í þetta) ofan í sigti og helli vökvanum í sigtið, skil það svo eftir í 5 mínútur eða svo meðan vökvinn er að renna í gegn. Kreisti svo jafn mikinn vökva og ég mögulega get úr blöndunni í gegn um tuskuna.

Þeir sem vilja hana sætari geta sett Agave eða Stevíu (eða annað sætuefni) eftir smekk. Hræra svo bara eða hrista vel.

föstudagur, 17. október 2008

Rúsínu smákökur

Þessar er þægilegt að taka með sér þegar maður gerir ráð fyrir að vera í kaffi annarstaðar en heima hjá sér. Þau kex sem eru glúteinlaus, mjólkurlaus og alveg reyr sykurlaus eru mjög fá hér á landi og fáránlega dýr. Alveg upp í rúmlega 100 kr kex kakan. Mér presónulega finnst um 1000kr fyrir venjulegan kaffitíma allt of mikið. Þessar minna mjög á svona oatmeal raisin cookies. Þessar eru eggjalausar einnig.


1/2 bolli hunag EÐA Agave
1/3 bolli ávaxtasykur
1/2 bolli kókosolía
1/2 bolli hnetusmjör eða möndlusmjör
1/2 tsk vanilla
1 bolli hrísmjöl
3/4 bolli quinoa flögur (ef þið eigið hirsi flögur td notist þá við þær)
1 tsk natron
1/4 tsk salt
1/2-1 bolli rúsínur, ég vil hafa mikið af rúsínum og notaði heilan bolla.

Hrærið saman öllum þurrefnum. Í annarri skál þeytið þá vel og rækilega saman blautefnunum. Bætið svo þurrefnum og þeytið þar til allt blandast vel saman. hrærið svo rúsínum saman við. Mótið svo kúlur úr blöndunni og setjið á bökunarplötuna og pressið örlítið niður. Vel rúmlega tsk í hverja kúlu.
Bakist við 170 gráður í 10-15 mínútur. Leyfið kökunum að kólna alveg áður en þið reynið að taka þær af plötunum annars hrynja þær í sundur. Þær eru mjög mjúkar og lausar í sér þangað til þær hafa fengið að kólna.

laugardagur, 11. október 2008

Hörfræ og eggja brauð. 5 mínútna uppskrift!

Þessi uppskrift verður aldrei uppáhalds uppskrift hjá okkur, ég er líka að spá í að prófa mig áfram með hana en hún er svo hrikalega fkjótleg, einföld og þægileg að ég verð að setja hana inn. Það er líka ekkert að henni, hún er bara hlutlaus en ég held að maður fengi fljótt leið á henni. En þegar maður fattar rétt fyrir hádegismat að maður gleymdi að taka út brauðið þá er gott að geta gripið í virkilega fljótlega brauðuppskrift. Að auki fást hörfræ svo til allstaðar og ef maður ferðast með litla krukku af vínsteinslyftiduft þá getur maður allaveganna búið til öruggt brauð á ferðalögum jafnvel þó enginn bakaraofn sé til staðar.
Strákling fannst mjög lítið varið í hana en stelpunni fannst hún fín.


Hráefnið:

4 msk hörfræ mjöl (ég henti hörfræjum í mortel og muldi þau þar)
lítil klípa salt
1/2 tsk vínsteinslyftiduft
1 stórt egg
1-2 msk olía
Krydd eftir smekk, ég notaði pipar/chilli/laukblöndu

Allt sett í skál sem þolir að fara í örbylgju, ég nota morgunverðarskálarnar okkar og inn í örbylgju í 1-2 og 1/2 mínútu á hæsta hita. Þetta fer mjög eftir hversu kraftmikill örbylgjuofninn er. Þetta á að líta út fyrir að vera nokkuð stíft í miðjunni. Leyfið þessu svo að kólna í mínútu eða svo og hvolfið úr skálinni. Ég þurfti aðeins að losa brúnirnar frá með hníf.

Þetta er nokkurskonar gróft eggjabrauð.

miðvikudagur, 8. október 2008

Súkkulaði krem (Ekki alveg sykurlaust)

Gleymdi að setja inn kremið sem ég setti á súkkulaðikökuna um daginn, það er ekki alveg krem sem ég myndi nota fyrir börnin þar sem það inniheldur hrásykur en þar sem að flestir notast alveg við hann í hófi þá ætla ég samt að setja það inn.
Ég hef verið að reyna að finna reyrsykurlaust súkkulaði en það virðist allt innihalda malitol (er ekki 100% á stafsetningunni) sem er unnið úr bygg, þ.e inniheldur glúten.
Fer í það á næstunni að gera súkkulaði krem sem er sykurlaust.

150gr dökkt súkkulaði (ég notaði lífrænt með 70% kakó innihaldi)
1/2 bolli olía (bragðlítil td vínsteinsolía)
2 msk agave EÐA nokkrir dropar Stevía
1 tsk vanilla

Allt brætt saman í potti við mjög lágan hita, kælt og hellt yfir kökuna. Þar sem ég bakaði kökuna í eldföstu móti þá var bara gott lag af súkkulaði yfir kökunni. Setti kökuna svo inn í ísskáp þannig að súkkulaðið storknaði en þar sem það var olía í súkkulaði blöndunni þá varð það ekki alveg hart.

fimmtudagur, 2. október 2008

Súkkulaði kaka!

Uppskriftin af þessari köku er á flakki víða á netinu en ég hef ekki fundið út hver höfundurinn er, ef einhver veit það má sá sami láta mig vita :) Þetta er ein af þessum uppskriftum sem er í eðli sínu glúteinlaus og caseinlaus og reiðir sig ekki á margar mismunadi mjöltegundir.
Ég las yfir innihaldið og var ekki alveg að kaupa það að það yrði mikið varið í hana. En fannst þetta líka áhugavert og ákvað að prófa þar sem ég var með öll hráefnin við hendina. Hún var ekki prófuð af börnum í þetta skiptið (hvaða barni finnst súkkulaði kaka ekki góð) en ég fór með hana niður í vinnu til vinkonu minnar, samstarfsfólk hennar smakkaði hana og gaf henni góða dóma. Hún er mjúk og dálítið blaut í sér. Fólk fattar engan vegin að það sé að borða eitthvað annað en venjulega en samt mjög góða súkkulaði köku.

Innihald:
500gr kjúklingabaunir, útvatnaðar og soðnar eða úr dós/krukku. Ég hellti þeim öllum í stóra skál með vatni og nuddaði þær létt með höndunum til að losa um skinnin, þau fljóta svo upp og það er hægt að taka þau burt.
2/3 bolli appelsínusafi EÐA 2/3 bolli kókosmjólk
4 egg
1 tsk vanilla
2/3 bolli fructose/ávaxtasykur EÐA 2/3 bolli Agave EÐA 2/3 bolli hunang
2/3 bolli kakó duft
2 tsk vínsteinslyftiduft
1 tsk natron

Öllum hráefnum skellt í blender eða matvinnsluvél og blandað vel og rækilega, gæti þurft að skrapa niður hliðarnar til að allt blandist vel saman. Ég setti fyrst baunirnar og öll blautefnin og svo þurrefnin yfir svo að þurrefnin myndu ekki hlaupa í kekki á botninum
Hellt í eldfast mót eða kökumót og bakað við 180 C í 50 mínútur.
Leyfið henni svo að kólna og setjið krem að eigin vali ofan á. Hún er frekar lengi að kólna, ég skellti henni inn í ísskáp til að flýta fyrir þar sem ég var á hraðferð.

Þessi uppskrift dugar alveg fyrir 8 manns, ég geri oft 1/2 í litlu eldföstu móti ef það eru bara við 4. Ætla líka að prófa næst þegar ég geri hana að gera hana í möffinsformum og sjá hvernig það gengur.

EDIT:
Kannski best að uppfæra, hef bakað þessu hér heima fyrir börnin og þeim fannst hún góð, vorum með gesti í kaffi, vinkona mín, maðurinn hennar og 3 börn og öllum fannst hún fín, tveggja ára dóttur vinkonu minnar var hin mesta dúlla, komin með súkkulaði út um allt andlit að biðja um meira.
Ég hef líka bakað þessa í vinnunni hjá mér og þar fékk hún góða dóma og ein stelpa sem ég þekki hefur bakað hana fyrir tengdafjölskyldu sína sem er ekki á sérfæði og þar féll hún líka í góðann jarðveg.

Á stefnuskrá er að gera tilraun með að gera hana eggja lausa, veit ekki alveg hvenar ég kemst í það en mun uppfæra ef það gengur vel.