laugardagur, 11. október 2008

Hörfræ og eggja brauð. 5 mínútna uppskrift!

Þessi uppskrift verður aldrei uppáhalds uppskrift hjá okkur, ég er líka að spá í að prófa mig áfram með hana en hún er svo hrikalega fkjótleg, einföld og þægileg að ég verð að setja hana inn. Það er líka ekkert að henni, hún er bara hlutlaus en ég held að maður fengi fljótt leið á henni. En þegar maður fattar rétt fyrir hádegismat að maður gleymdi að taka út brauðið þá er gott að geta gripið í virkilega fljótlega brauðuppskrift. Að auki fást hörfræ svo til allstaðar og ef maður ferðast með litla krukku af vínsteinslyftiduft þá getur maður allaveganna búið til öruggt brauð á ferðalögum jafnvel þó enginn bakaraofn sé til staðar.
Strákling fannst mjög lítið varið í hana en stelpunni fannst hún fín.


Hráefnið:

4 msk hörfræ mjöl (ég henti hörfræjum í mortel og muldi þau þar)
lítil klípa salt
1/2 tsk vínsteinslyftiduft
1 stórt egg
1-2 msk olía
Krydd eftir smekk, ég notaði pipar/chilli/laukblöndu

Allt sett í skál sem þolir að fara í örbylgju, ég nota morgunverðarskálarnar okkar og inn í örbylgju í 1-2 og 1/2 mínútu á hæsta hita. Þetta fer mjög eftir hversu kraftmikill örbylgjuofninn er. Þetta á að líta út fyrir að vera nokkuð stíft í miðjunni. Leyfið þessu svo að kólna í mínútu eða svo og hvolfið úr skálinni. Ég þurfti aðeins að losa brúnirnar frá með hníf.

Þetta er nokkurskonar gróft eggjabrauð.

Engin ummæli: