fimmtudagur, 2. október 2008

Súkkulaði kaka!

Uppskriftin af þessari köku er á flakki víða á netinu en ég hef ekki fundið út hver höfundurinn er, ef einhver veit það má sá sami láta mig vita :) Þetta er ein af þessum uppskriftum sem er í eðli sínu glúteinlaus og caseinlaus og reiðir sig ekki á margar mismunadi mjöltegundir.
Ég las yfir innihaldið og var ekki alveg að kaupa það að það yrði mikið varið í hana. En fannst þetta líka áhugavert og ákvað að prófa þar sem ég var með öll hráefnin við hendina. Hún var ekki prófuð af börnum í þetta skiptið (hvaða barni finnst súkkulaði kaka ekki góð) en ég fór með hana niður í vinnu til vinkonu minnar, samstarfsfólk hennar smakkaði hana og gaf henni góða dóma. Hún er mjúk og dálítið blaut í sér. Fólk fattar engan vegin að það sé að borða eitthvað annað en venjulega en samt mjög góða súkkulaði köku.

Innihald:
500gr kjúklingabaunir, útvatnaðar og soðnar eða úr dós/krukku. Ég hellti þeim öllum í stóra skál með vatni og nuddaði þær létt með höndunum til að losa um skinnin, þau fljóta svo upp og það er hægt að taka þau burt.
2/3 bolli appelsínusafi EÐA 2/3 bolli kókosmjólk
4 egg
1 tsk vanilla
2/3 bolli fructose/ávaxtasykur EÐA 2/3 bolli Agave EÐA 2/3 bolli hunang
2/3 bolli kakó duft
2 tsk vínsteinslyftiduft
1 tsk natron

Öllum hráefnum skellt í blender eða matvinnsluvél og blandað vel og rækilega, gæti þurft að skrapa niður hliðarnar til að allt blandist vel saman. Ég setti fyrst baunirnar og öll blautefnin og svo þurrefnin yfir svo að þurrefnin myndu ekki hlaupa í kekki á botninum
Hellt í eldfast mót eða kökumót og bakað við 180 C í 50 mínútur.
Leyfið henni svo að kólna og setjið krem að eigin vali ofan á. Hún er frekar lengi að kólna, ég skellti henni inn í ísskáp til að flýta fyrir þar sem ég var á hraðferð.

Þessi uppskrift dugar alveg fyrir 8 manns, ég geri oft 1/2 í litlu eldföstu móti ef það eru bara við 4. Ætla líka að prófa næst þegar ég geri hana að gera hana í möffinsformum og sjá hvernig það gengur.

EDIT:
Kannski best að uppfæra, hef bakað þessu hér heima fyrir börnin og þeim fannst hún góð, vorum með gesti í kaffi, vinkona mín, maðurinn hennar og 3 börn og öllum fannst hún fín, tveggja ára dóttur vinkonu minnar var hin mesta dúlla, komin með súkkulaði út um allt andlit að biðja um meira.
Ég hef líka bakað þessa í vinnunni hjá mér og þar fékk hún góða dóma og ein stelpa sem ég þekki hefur bakað hana fyrir tengdafjölskyldu sína sem er ekki á sérfæði og þar féll hún líka í góðann jarðveg.

Á stefnuskrá er að gera tilraun með að gera hana eggja lausa, veit ekki alveg hvenar ég kemst í það en mun uppfæra ef það gengur vel.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Gott að baka sem muffins og setja í frysti.
mammaxx