sunnudagur, 23. nóvember 2008

Laufabrauð

Ég hef verið að leita að uppskrift að glútenlausu laufabrauði í smá tíma. Gafst svo upp á að finna það og fékk vinkonu mína í lið með mér í tilrauna dag. Prófuðum okkur áfram með nokkrar uppskriftir og þar á meðal var í dag þróað glúteinlaust laufabrauð. Ég er mjög ánægð með útkomuna.

Deigið er viðkvæmt, maður þarf að fara mjög varlega með það en samt tókst að gera deig sem er hægt að fletja út, skera í og steikja. Ég mæli samt með að það sé skorið mjög lítið af munstri í það, það er viðkvæmt fyrir og þolir ekki að vera mikið skorið, þá er nær ómögulegt að flytja kökuna. Það þarf líka að pikka kökuna vel og prófa sig áfram með hitann, Feitin verður að vera nógu heit en hún verður auðveldlega of heit. Kökurnar þarf að fletja mjög þunnt annars verða þær of mjúkar í miðjunni.
Þetta er aðeins meira maus en venjulegt laufabrauð en samt kemst þetta fljótt upp á lagið.

Í þessa uppskrift nota ég ákveðna mjölblöndu. DOVES FARM WHITE BREAD FLOUR. Það er ekki oft sem að ég tiltek ákveðið merki þegar ég gef upp hvaða mjöl skal nota. Ég nota þessa tilteknu mjöl blöndu ekkert mjög oft þar sem ég vil frekar fínstilla hlutföllin sjálf. EN þessi mjölblanda inniheldur Xanthan Gum sem að er að mínu mati lykilinn að deigi sem að heldur sér þegar það er flatt út jafn þunnt og þetta þarf að vera. En ef það fengist Xanthan Gum (eða Guar Gum sem gerir sama gagn) hér á landi þá hefði ég gert mína eigin hveitiblöndu að öllum líkndum.

Innihald:

200gr DOVES FARM WHITE BREAD FLOUR (og meira til þegar deigið er hnoðað upp og flatt út)
100gr Bókhveiti
50gr fínt maismjöl
1-2 tsk fínt salt
1 msk Fructose/ávaxtasykur

180ml hrísgrjónamjólk*
90ml kókosmjólk
1 egg (pískað)

Ég er ekki vön sætu laufabrauði en þeir sem vilja það hafa saltið um 1tsk og auka fructose magnið. Ég ólst heldur ekki upp við kúmen í laufabrauði en þeir sem vilja það bæta því að sjálfsögðu við.

*Ekki Rice dream hún er ekki glútenlaus, ég nota oftast Isola.

Palmín til steikingar

Byrjið á því að blanda öllum þurrefnum í skál og píska þau saman með vírpísk. Þá blandast þau vel saman og þetta jafnast á við að sigta þau saman.

Blandið næst blautefnum saman og hrærið saman.
Hrærið svo blautefnum út í þurrefnin og blandið vel saman.

Á þessu stigi er degið nokkuð vel blaut. Stráið meira af Doves Farm mjöl blöndunni á borðið og hnoðið því inn í deigið, bætið við í litlum skömmtum þar til auðvelt er að hnoða deigið í kúlu án þess að hún klístrist mikið við hendurnar.
Skiptið í litlar kúlur.
Takið eina kúlu í einu, stráið smá Doves Farm mjöl blöndu á borðið og á kökukefli og fletjið varlega út, passið að deigið festist ekki við borð né kökukeflið með því að strá meira af mjölblöndunni eftir þörfum.
Þegar deigið er jafn þunnt og þið getið náð því án þess að það sé farið að detta í sundur skerið þá út hring. Ég fann að best væri að hafa kökurnar minna en þær hefðbundnu. Auðveldar alla meðhöndlun. Ég notaði hliðardisk/kökudisk og stóra undirskál til skiptis. Skerið svo í kökuna, pikkið vel og steikið í feitinni.
Leggið svo kökuna á pappír (ég nota dagblöð) svo að hann dragi aðeins í sig umfram feitina. Ég ólst upp við það að kökurnar voru pressaðar með hlemm til að fá þær flatari en sleppið því ef þið eruð vön að gera það, þær eru helst til viðkvæmar í það.

Engin ummæli: