mánudagur, 29. september 2008

Franskar

Ok þetta er ekki uppskrift heldur græja sem ég ætla að fjalla um núna. Yfirleitt er ég alls engin græjumanneskja þegar kemur að eldhúsáhöldum, ég á töfrasprota, mortel, handþeytara og sílikon möffins form. Þar með er eiginlega upp talið það sem ég á sem flokkast ekki undir alveg basic eldhúsáhöld. Ég á ekki matvinnsluvél, hrærivél, ísvél, brauðvél og þar fram eftir götunum, á reyndar blender en hef notað hann 2-3 í Boozt eða slíkt, er farin að nota töfrsprotann frekar en blenderinn í það. Ég á 2 brauðform, 2 möffinsform (6 möfins í hvort) og 3 eldföst mót. Ég á alls ekki kökumót og ofnmót í öllum stærðum og gerðum og hef hreinlega ekki pláss fyrir þessháttar í litlu miðbæjaríbúðinni sem við búum í.
Mér finnst eldhúsáhöld sem gera bara eitthvað eitt ákveðið algjör sóun á peningum og plássi. Sérstaklega plássi þegar eldhúsið er jafn lítið og okkar.
En í sumar þá var mamma með sér grind eða bakka fyrir franskar, fyrst þegar ég sá þetta fannst mér þetta eiginlega bara asnalegt, sá ekki tilganginn með þessu. En svo bjó hún til franskar, einföldustu franskar í heimi, hún skar niður kartöflur, skellti þeim á þessa grind og á c.a 20 mínútum voru komnar æðislegar franskar, stökkar að utan, mjúkar í miðjunni og úr engu öðru en kartöflum, engin fita eins og í þessum forsteiktu sem maður kaupir frosnar út í búð. Ferskar og ég get haft þær lífrænar, kaupi bara lífrænar kartöflur,
Þegar ég spurði hvar hún hafði keypt þetta þá var það bara í Bónus. Þetta er í raun mjög einfaldur bakki, með götum á. Götin valda því að það loftar vel um kartöflurnar þannig að þær verða ekki mauk kenndar eins og vill einstaka sinnum gerast í eldföstum mótum og þær eru enga stund að eldast miðað við sambærilegt í eldföstu móti.
Mamma saltar sínar eftir á en mér finnst betra að létt salta þær áður en ég set þær inn í ofn, en þær eru alltaf góðar hvort sem maður gerir.

laugardagur, 27. september 2008

Heill kjúklingur með Thailenskum keim

Mig langaði í eitthvað ferskt og með thailenskum keim í kvöld en samt eitthvað sem að börnin myndu borða, var með heilan kjúkling í ísskápnum sem ég hafði planað að hafa í matinn þannig að ég notaðist við hann. Notaðist við svipað bragð og er í Laab gai salatinu en bara mun mildara og ögn einfaldara.

Uppskriftin kallar á :
1 heilan kjúkling
1 heilan hvítlauk
2 lime
1 tsk af góðu thailensku chilli
1 lítið búnt af myntu
1 rauðlauk
2 msk olía
Salt (ég notaði maldon salt)

Ég byrjaði á að mauka alla hvítlauksgeirana í morteli (alveg hægt að nota hvítlaukspressu) og blandaði chilli duftinu við. Kreisti svo safannn úr 1 og hálfu lime og hrærði saman við. Hellti helmingnum af blöndunni í skál.
Bætti út í skálina 1 grófsöxuðum rauðlauk, myntunni grófsaxaðari, hálfu lime skorið í báta, olíu og góðri klípu af salt. Veltu þessu öllu saman og kramdi aðeins með höndunum. Tók kjúklinginn og fyllti hann með þessari blöndu. Hellti safanum sem var eftir í skálinni með inn í kjúklinginn.
Setti kjúklinginn í eldfast mót og penslaði restinni af lime, hvítlauks chilli blöndunni yfir hann og stráði annari vænni klípu af salti yfir. Hellti c.a dl af vatni í botninn á eldfasta mótinu. Inní ofn við 180 gráður í c.a 90 mínútur (var með frekar stóran kjúkling)
Fyllingin kryddaði kjötið alveg frábærlega innan frá með lime og myntu og smá keim af chilli. Æðislegur en einfaldur kjúklingur.

Snakk í kvöldmat.

Krakkarnir héldu að ég væri endanlega búin að missa vitið í gærkvöldi þegar ég kallaði á þau til að koma að borða. Ég eldaði sömu kjötblöndu og ég nota í Taco´s, skar niður fullt af grænmeti frekar smátt og bar á borð með Nacho´s flögum. Það skiptir auðvitað máli hvernig Nacho´s flögur eru notaðar, þær sem ég notaði voru bara létt saltaðar og með nákvæmlega sama innihaldi og Taco skeljarnar sem ég nota í svo til sömu hlutföllum. En þeim fannst þetta þvílíkt sport og töldu að sjálfsögðu að þau væru að borða eitthvað sem að ætti í raun ekki að borða í kvöldmat. :)

miðvikudagur, 24. september 2008

Laab Gai, Thailenskt kjúklingasalat (FULLORÐINS)

Þetta thailenska kjúklingasalat er í miklu uppáhaldi hjá bæði mér og manninum mínum en við höfum ekki lagt í að gera það fyrir börnin þar sem það er allt of sterkt, geri þá bara einfalt og mildara kjúklingasalat fyrir þau.
500 gr kjúklingakjöt, skorið smátt.
6 Hvítlauksgeirar, maukaðir
2 litlir bitar Galanga (fæst í asískum verslunum) ristaðir og muldir.
3 teskeiðar þurrkuð, ristuð fínt mulin tailensk chilli.
3-4 Msk Nam bplah (fish sauce) lesið vel á miðann því sumar innihalda glúten, sjaldgæft en kemur fyrir.
Safinn úr 2-3 Lime.
2 Vorlaukar fínt saxaðir (bara hvíti parturinn)
1/2 rauðlaukur, fínsaxaður.
1/2 bolli söxuð mynta
2 Msk ristuð mulinn grjón (Ristið hrísgrjón á þurri pönnu þar til þau eru gullin, hristið allan tímann svo þau brenni ekki og myljið svo í morteli)

Steikið kjúklinginn á pönnu og hrærið saman við hann Lime safa, hvítlauk, Nam bplah, chilli, galanga. Leyfið svo að kólan þar til það er við stofuhita og hrærið rauðlauk, vorlauk og myntu saman við. Hellið síðan ristuðu grjónunum yfir og hrærið saman við.
Ég borða þennan rétt þannig að ég set skammt af honum á Iceberg blað, vef því utan um og borða á svipaðann hátt og ef þetta væri Burritos.

Hef síðan mikið af skornu grænmeti með, gúrku, papríku, ferskum baunabelgjum og maðurinn minn vill rifnar gulrætur með. Sýð einnig hrísgrjón með.

mánudagur, 15. september 2008

Innihhaldslýsingar

Þessi síða: http://www.gfcfdiet.com/unacceptable.htm er með nokkuð ítarlegan lista um innihaldsefni sem innihalda glúten eða Casein (mjólkurprótein). Listinn er á ensku en hefur komið mér að góðum notum. Vonandi nýtist hann öðrum einnig.

föstudagur, 12. september 2008

Kjúklinganaggar

Ég ætla að byrja á því að biðjast afsökunar á því hvað það er langt síðan að ég hef bloggað. Var erlendis í 2vikur, brákaði svo á mér únliðinn seinasta daginn úti þannig að það hefur ekki farið mikið fyrir tilrauna eldamennsku hér á bæ seinasta mánuðinn eða svo.

En nú er kominn tími á að byrja aftur að blogga.

Kjúklinganaggar eru vinsælir hjá svo til öllum börnum. Þessi uppskrift er einföld og nokkuð góð, mjög góð að mati barna en ég persónulega er ekkert sérstaklega hrifin af nöggum. Fínt að bjóða upp á í barna afmælum í staðinn fyrir pizzur, pylsur oþh. Eða bara um helgar í staðinn fyrir annan ruslmat. Þeir eru ekki þeir hollustu enda brasaður matur en þú veist allaveganna nákvæmlega hvað er í þeim.

Kjúklingabitar, td kjúklingabringur skornar í bita. Hægt að nota hvaða kjúklingakjöt sem er sem er beinlaust. Blandan dugar fyrir c.a 3 bringur.

Deighjúpur:

1/3bolli Glútenlaust hveiti (Ég nota c.a 80% hrísmjöl og 20% Tapioca mjol)
1/4 tsk salt
1 og 1/2 tsk edik
1/4 tsk Matarsódi
1/3 bolli vatn

Blandið hveitinu og saltinu saman í skál, í annari skál blandið þið saman Matarsóda og ediki, hellið edik blöndunni yfir hveitið og svo vatninu strax yfir. Hrærið vel. Látið standa í 5 mínútur og þá mun blandan þykkna. Setjið svo kjúklingabitana í deig blönduna og látið standa í henni meðan að þið hitið olíu á pönnu. Þegar olían er orðin heitið steikið þá bitana á pönnunni þar til þeir eru gullinbrúnir og bitarnir eru gegnsteiktir.