laugardagur, 6. desember 2008

Mælieiningar

Vinkona mín benti mér á að ekki allir ættu bollamál eða væru öruggir um hvað bollamál væri mikið.
1 Bolli = 2,5 dl/250 ml
1/2 Bolli = 125 ml
1/3 bolli = 80 ml
1/4 Bolli = 60 ml EÐA 4 msk
1/8 Bolli = 30 ml EÐA 2 msk
1 Msk = 15 ml
Ég veit að það kemur ekki sama tala ef maður margfaldar 1/4 bolla eða 60 ml með 4 og er í 1 bolla en þetta eru ml tölurnar sem eru á bollamálunum sem ég notast við í öllum uppskriftum hér á síðunni.

fimmtudagur, 27. nóvember 2008

Kókoskúlur

Glútenlaus, mjólkurlaus osfrv bakstur er oft á tíðum flóknari og aðeins tímafrekari en hefðbundinn bakstur, mér finnst það venjast mjög fljótt en það er samt þægilegt að vera með eldfljóta uppskrift sem að krakkarnir geta gert sjálf þegar maður virkilega nennir ekki að baka en þeim langar í eitthvað.
Kókoskúlur er með því einfaldara sem hægt er að gera.

100 gr Kókosmjöl
1 egg
25 gr fructose/ávaxtasykur EÐA 2 msk Agave sýróp

Öllu hrært saman, mótaðar litlar kúlur settar á plötu og bakaðar við um 180 C í 10-15 mínútur eða þar til þær eru gullnar að utan.

Við borðum þessar yfirleitt bara eintómar, mér finnst þægilegt að grípa þær með þegar maður er á ferðinni og maður er eldsnöggur að gera þær áður en maður fer ef því er að skipta.
Uppskriftin er lítil þannig um að gera að margfalda hana eftir þörfum.

Svo er mjög gott að dýfa hálfri kúlunni ofan í brætt súkkulaði (ég nota dökkt, 70%). Fínar þannig ef það er eitthvað sérstakt í gangi eða um jól.

sunnudagur, 23. nóvember 2008

Laufabrauð

Ég hef verið að leita að uppskrift að glútenlausu laufabrauði í smá tíma. Gafst svo upp á að finna það og fékk vinkonu mína í lið með mér í tilrauna dag. Prófuðum okkur áfram með nokkrar uppskriftir og þar á meðal var í dag þróað glúteinlaust laufabrauð. Ég er mjög ánægð með útkomuna.

Deigið er viðkvæmt, maður þarf að fara mjög varlega með það en samt tókst að gera deig sem er hægt að fletja út, skera í og steikja. Ég mæli samt með að það sé skorið mjög lítið af munstri í það, það er viðkvæmt fyrir og þolir ekki að vera mikið skorið, þá er nær ómögulegt að flytja kökuna. Það þarf líka að pikka kökuna vel og prófa sig áfram með hitann, Feitin verður að vera nógu heit en hún verður auðveldlega of heit. Kökurnar þarf að fletja mjög þunnt annars verða þær of mjúkar í miðjunni.
Þetta er aðeins meira maus en venjulegt laufabrauð en samt kemst þetta fljótt upp á lagið.

Í þessa uppskrift nota ég ákveðna mjölblöndu. DOVES FARM WHITE BREAD FLOUR. Það er ekki oft sem að ég tiltek ákveðið merki þegar ég gef upp hvaða mjöl skal nota. Ég nota þessa tilteknu mjöl blöndu ekkert mjög oft þar sem ég vil frekar fínstilla hlutföllin sjálf. EN þessi mjölblanda inniheldur Xanthan Gum sem að er að mínu mati lykilinn að deigi sem að heldur sér þegar það er flatt út jafn þunnt og þetta þarf að vera. En ef það fengist Xanthan Gum (eða Guar Gum sem gerir sama gagn) hér á landi þá hefði ég gert mína eigin hveitiblöndu að öllum líkndum.

Innihald:

200gr DOVES FARM WHITE BREAD FLOUR (og meira til þegar deigið er hnoðað upp og flatt út)
100gr Bókhveiti
50gr fínt maismjöl
1-2 tsk fínt salt
1 msk Fructose/ávaxtasykur

180ml hrísgrjónamjólk*
90ml kókosmjólk
1 egg (pískað)

Ég er ekki vön sætu laufabrauði en þeir sem vilja það hafa saltið um 1tsk og auka fructose magnið. Ég ólst heldur ekki upp við kúmen í laufabrauði en þeir sem vilja það bæta því að sjálfsögðu við.

*Ekki Rice dream hún er ekki glútenlaus, ég nota oftast Isola.

Palmín til steikingar

Byrjið á því að blanda öllum þurrefnum í skál og píska þau saman með vírpísk. Þá blandast þau vel saman og þetta jafnast á við að sigta þau saman.

Blandið næst blautefnum saman og hrærið saman.
Hrærið svo blautefnum út í þurrefnin og blandið vel saman.

Á þessu stigi er degið nokkuð vel blaut. Stráið meira af Doves Farm mjöl blöndunni á borðið og hnoðið því inn í deigið, bætið við í litlum skömmtum þar til auðvelt er að hnoða deigið í kúlu án þess að hún klístrist mikið við hendurnar.
Skiptið í litlar kúlur.
Takið eina kúlu í einu, stráið smá Doves Farm mjöl blöndu á borðið og á kökukefli og fletjið varlega út, passið að deigið festist ekki við borð né kökukeflið með því að strá meira af mjölblöndunni eftir þörfum.
Þegar deigið er jafn þunnt og þið getið náð því án þess að það sé farið að detta í sundur skerið þá út hring. Ég fann að best væri að hafa kökurnar minna en þær hefðbundnu. Auðveldar alla meðhöndlun. Ég notaði hliðardisk/kökudisk og stóra undirskál til skiptis. Skerið svo í kökuna, pikkið vel og steikið í feitinni.
Leggið svo kökuna á pappír (ég nota dagblöð) svo að hann dragi aðeins í sig umfram feitina. Ég ólst upp við það að kökurnar voru pressaðar með hlemm til að fá þær flatari en sleppið því ef þið eruð vön að gera það, þær eru helst til viðkvæmar í það.

miðvikudagur, 19. nóvember 2008

Súkkulaði muffins

Um daginn fórum við í lautarferð og okkur langaði í súkkulaðimöffins. Ég var ekki með neina uppskrift sem ég var orðin sátt við og gerði því þessa http://krakkamatur.blogspot.com/2008/10/skkulai-kaka.html í muffinsformum. Bökuð jafn lengi og hin og skilar 12 möffins.
Passa bara að hvolfa þeim strax úr möffinsformunum, allaveganna ef þið eruð að nota sílikonform, annars safnast raki á hliðunum sem er ekki það geðslegasta.

föstudagur, 14. nóvember 2008

Mig langar í laufabrauð!

Ég auglýsi eftir laufabrauðsuppskrift. Ef einhver á glútenlausa laufabrauðsuppskrift og er til í að deila henni með mér þá væri ég gífurlega þakklát.

Það fer að styttast í jól og það verður að vera laufabrauð um jól :)

fimmtudagur, 13. nóvember 2008

Þeyttur rjómi!

Það er komin ný vara á markaðinn hér á fróni. Rice whip frá Soyatoo. Hingað til höfum við alfarið sleppt þeyttum rjóma, þeir einu sem ég hef fundið innihalda soya sem ég reyni að forðast. Einnig er reyndar hægt að fá rjóma unninn úr höfrum en við notum ekki hafra og ég veit ekki hvort það sé hægt að þeyta hann.

Rice whip er allaveganna kominn í Yggdrasil, Maður lifandi og Fjarðarkaup.
Við höfum reyndar ekki notað hann mikið, en stráknum fannst rosalegt sport að fá þeyttann rjóma út í kakóið sitt. Ætla að prufa mig áfram með að nota hann, veit ekki hversu mikið alveg á næstunni þar sem ég er að fara prufa mig áfram með jólasmáköku uppskriftir svo að það sé allaveganna hægt að baka fyrir jólin en ég hef nokkrar hugmyndir til að prófa með þennan rjóma.

Mér finnst frábært framtak hjá Yggdrasil (heildsalan Yggdrasill flytur hann inn) að koma loksins með á markaðinn mjólkur og soyalausum sprauturjóma.

Ath það stendur Maltódextrín í fyrstu innihaldslýsingunni sem er á þýsku en í annarri lýsingunni sem er á ensku er tekið fram að það sé maltódextrín unnið úr hrísgrjónum.

föstudagur, 7. nóvember 2008

Góð heilsa gulli betri...

Undanfarna daga hef ég verið pirruð, ákaflega pirruð. Ég hef þrætt heilsuvöruverslanir borgarinnar í leit af hinu og þessu. Allstaðar sér maður að úrvalið hefur stórlega minnkað og kannski er það bara ég en sérstaklega minnkað í glúteinlausu deildunum. Svo þegar maður spyr um eitthvað þá er alltaf sagt að þetta sé vonandi að koma fljótlega. Svona "sér"vara sem er samt nauðsynleg mörgum er víst ekki ofarlega á lista yfir því sem fæst gjaldeyrir fyrir. Ég vorkenni starfsmönnum þessara verslana innilega. Hins vegar er eitt sem að ég er búin að heyra of oft undanfarið, "nei því miður ekki til en við eigum þetta úr spelt". Spelt er ekki glúteinlaust, punktur og basta. Jú jú sumir sem þola illa hveiti virðast þola spelt en það er samt glútein í því. Yfirleitt taka starfsmenn vel í leiðréttingar en þegar þeir reyna að þræta fyrir það og alhæfa að allir þeir sem mega ekki fá glútein megi fá spelt því það sé sko víst glúteinlasut þá verð ég eiginlega bara reið, bara af því að einhver sem það þekkir þolir illa hveiti en þolir spelt.

En í lok neikvæðni og pirrings þá vil ég HRÓSA. Stórt hrós fær heilsu vöruverslunin Góð heilsa Gulli betri á Njálsgötu 1. Fór þangað í dag en ég hef ekki komið þangað inn í um 6 vikur, úrvalið af glúteinlausri sérvöru hefur aukist þar þó nokkuð og ekki spillir fyrir að yfirleitt er þessu verslun ódýrari en aðrar heilsuvöruverslanir. Keypti td Allos Agave þar, 250 ml á 519 en í öðrum var nákvæmlega sama vara á yfir 800kr. Agave er meira að segja aðeins dýrara í Bónus eða um 20 krónum (539 fyrir 250 ml) en reyndar annað merki.
Mæli með að allir kíkji þar við og styðji verslun sem að er allavegana enn sem komið er ekki búin að hækka verð sín neitt verulega.

miðvikudagur, 5. nóvember 2008

Furuhnetumjólk

Furuhnetumjólk er auðveld og þægileg, hún virkar líka dálítið rjómakennd og að okkar mati er hún mjög góð.

Hlutföllin eru:
1 hluti furuhnetur (dl, bolli osfrv)
6 hlutar vatn
Sætt eftir smekk með td agave, hunagi, stvíu eða öðru.

Öllu skellt í blender og leyfa honum bara að ganga í smástund, það þarf ekki að láta þær liggja í bleyti en mér finnst þær blandast aðeins fljótar þannig. Þarf ekkert að sía heldur er hún strax tilbúin til notkunar.

mánudagur, 27. október 2008

Smalabaka

1 stór laukur, saxaður
3-4 stórar gulrætur, rifnar
c.a 500 gr hakk
200-400ml vatn
1 msk olía
1 súputeningur
krydd eftir smekk, ég hafði þetta einfalt og notaði svartan pipar og ekkert annað.

c.a 500 gr soðnar kartöflur, flysjaðar.
1-2 msk olía
smá salt og pipar

Steikjið laukinn við miðlungshita þar til hann er orðin hálf glær, bætið þá gulrótunum við og steikjið áfram í nokkrar mínútur. Hellið þessu í pott og bætið við vatni og súputening.
Steikið hakkið og bætið við í pottinn kryddið og leyfið þessu að malla.
Ég byrja á c.a 2 dl af vatni og bæti við smá vatni eftir þörfum ef mér finnst þetta of þurrt.

Stappið kartöflurnar með olíunni og salt og pipar. Ef þið eruð með soðnar kartöflur með matnum daginn áður þá er fínst að sjóða aukaskammt af kartöflum þá til að notast við í þennan rétt.

Þegar kjötblandan hefur fengið að malla í allaveganna korter en má alveg leyfa henni að malla alveg upp í klukkutíma eða svo (bara muna að bæta við vatni) hellið henni þá í ofnfast mót. Setjið kartöflustöppuna yfir þannig að hún þekji kjötblönduna að mestu leyti. Setjið inn í 200 gráðu heitan ofn í c.a 20 mínútur eða þar til kartöflustappan er orðin gullin að ofan.

Berið á borð með grænmeti að eigin vali.

fimmtudagur, 23. október 2008

Möndlumjólk

Möndlumjólk er mun hollari en hrísmjólk, hrísmjólk inniheldur litla næringu en möndlumjólkin gerir það aftur á mót. Hún er gífurlega einföld að gerð:

Hlutföllin eru:
1 hluti möndlur (dl, bolli, hentugt glas)
4 hlutar vatn

Best er að láta möndlurnar liggja í bleyti einhvern tíma fyrst, ég læt þær stundum liggja í bleyti inn í ísskáp yfir nótt, þá get ég klárað að gera hana um morgunin og hún er samt köld.
Vatninu og möndlunum er hent í blender og honum skellt af stað. 2-5 mínútur, fer eftir hve lengi þær lágu í bleyti.
Ég legg síðan tusku (keypti bleiju tuskur sem ég nota eingöngu í þetta) ofan í sigti og helli vökvanum í sigtið, skil það svo eftir í 5 mínútur eða svo meðan vökvinn er að renna í gegn. Kreisti svo jafn mikinn vökva og ég mögulega get úr blöndunni í gegn um tuskuna.

Þeir sem vilja hana sætari geta sett Agave eða Stevíu (eða annað sætuefni) eftir smekk. Hræra svo bara eða hrista vel.

föstudagur, 17. október 2008

Rúsínu smákökur

Þessar er þægilegt að taka með sér þegar maður gerir ráð fyrir að vera í kaffi annarstaðar en heima hjá sér. Þau kex sem eru glúteinlaus, mjólkurlaus og alveg reyr sykurlaus eru mjög fá hér á landi og fáránlega dýr. Alveg upp í rúmlega 100 kr kex kakan. Mér presónulega finnst um 1000kr fyrir venjulegan kaffitíma allt of mikið. Þessar minna mjög á svona oatmeal raisin cookies. Þessar eru eggjalausar einnig.


1/2 bolli hunag EÐA Agave
1/3 bolli ávaxtasykur
1/2 bolli kókosolía
1/2 bolli hnetusmjör eða möndlusmjör
1/2 tsk vanilla
1 bolli hrísmjöl
3/4 bolli quinoa flögur (ef þið eigið hirsi flögur td notist þá við þær)
1 tsk natron
1/4 tsk salt
1/2-1 bolli rúsínur, ég vil hafa mikið af rúsínum og notaði heilan bolla.

Hrærið saman öllum þurrefnum. Í annarri skál þeytið þá vel og rækilega saman blautefnunum. Bætið svo þurrefnum og þeytið þar til allt blandast vel saman. hrærið svo rúsínum saman við. Mótið svo kúlur úr blöndunni og setjið á bökunarplötuna og pressið örlítið niður. Vel rúmlega tsk í hverja kúlu.
Bakist við 170 gráður í 10-15 mínútur. Leyfið kökunum að kólna alveg áður en þið reynið að taka þær af plötunum annars hrynja þær í sundur. Þær eru mjög mjúkar og lausar í sér þangað til þær hafa fengið að kólna.

laugardagur, 11. október 2008

Hörfræ og eggja brauð. 5 mínútna uppskrift!

Þessi uppskrift verður aldrei uppáhalds uppskrift hjá okkur, ég er líka að spá í að prófa mig áfram með hana en hún er svo hrikalega fkjótleg, einföld og þægileg að ég verð að setja hana inn. Það er líka ekkert að henni, hún er bara hlutlaus en ég held að maður fengi fljótt leið á henni. En þegar maður fattar rétt fyrir hádegismat að maður gleymdi að taka út brauðið þá er gott að geta gripið í virkilega fljótlega brauðuppskrift. Að auki fást hörfræ svo til allstaðar og ef maður ferðast með litla krukku af vínsteinslyftiduft þá getur maður allaveganna búið til öruggt brauð á ferðalögum jafnvel þó enginn bakaraofn sé til staðar.
Strákling fannst mjög lítið varið í hana en stelpunni fannst hún fín.


Hráefnið:

4 msk hörfræ mjöl (ég henti hörfræjum í mortel og muldi þau þar)
lítil klípa salt
1/2 tsk vínsteinslyftiduft
1 stórt egg
1-2 msk olía
Krydd eftir smekk, ég notaði pipar/chilli/laukblöndu

Allt sett í skál sem þolir að fara í örbylgju, ég nota morgunverðarskálarnar okkar og inn í örbylgju í 1-2 og 1/2 mínútu á hæsta hita. Þetta fer mjög eftir hversu kraftmikill örbylgjuofninn er. Þetta á að líta út fyrir að vera nokkuð stíft í miðjunni. Leyfið þessu svo að kólna í mínútu eða svo og hvolfið úr skálinni. Ég þurfti aðeins að losa brúnirnar frá með hníf.

Þetta er nokkurskonar gróft eggjabrauð.

miðvikudagur, 8. október 2008

Súkkulaði krem (Ekki alveg sykurlaust)

Gleymdi að setja inn kremið sem ég setti á súkkulaðikökuna um daginn, það er ekki alveg krem sem ég myndi nota fyrir börnin þar sem það inniheldur hrásykur en þar sem að flestir notast alveg við hann í hófi þá ætla ég samt að setja það inn.
Ég hef verið að reyna að finna reyrsykurlaust súkkulaði en það virðist allt innihalda malitol (er ekki 100% á stafsetningunni) sem er unnið úr bygg, þ.e inniheldur glúten.
Fer í það á næstunni að gera súkkulaði krem sem er sykurlaust.

150gr dökkt súkkulaði (ég notaði lífrænt með 70% kakó innihaldi)
1/2 bolli olía (bragðlítil td vínsteinsolía)
2 msk agave EÐA nokkrir dropar Stevía
1 tsk vanilla

Allt brætt saman í potti við mjög lágan hita, kælt og hellt yfir kökuna. Þar sem ég bakaði kökuna í eldföstu móti þá var bara gott lag af súkkulaði yfir kökunni. Setti kökuna svo inn í ísskáp þannig að súkkulaðið storknaði en þar sem það var olía í súkkulaði blöndunni þá varð það ekki alveg hart.

fimmtudagur, 2. október 2008

Súkkulaði kaka!

Uppskriftin af þessari köku er á flakki víða á netinu en ég hef ekki fundið út hver höfundurinn er, ef einhver veit það má sá sami láta mig vita :) Þetta er ein af þessum uppskriftum sem er í eðli sínu glúteinlaus og caseinlaus og reiðir sig ekki á margar mismunadi mjöltegundir.
Ég las yfir innihaldið og var ekki alveg að kaupa það að það yrði mikið varið í hana. En fannst þetta líka áhugavert og ákvað að prófa þar sem ég var með öll hráefnin við hendina. Hún var ekki prófuð af börnum í þetta skiptið (hvaða barni finnst súkkulaði kaka ekki góð) en ég fór með hana niður í vinnu til vinkonu minnar, samstarfsfólk hennar smakkaði hana og gaf henni góða dóma. Hún er mjúk og dálítið blaut í sér. Fólk fattar engan vegin að það sé að borða eitthvað annað en venjulega en samt mjög góða súkkulaði köku.

Innihald:
500gr kjúklingabaunir, útvatnaðar og soðnar eða úr dós/krukku. Ég hellti þeim öllum í stóra skál með vatni og nuddaði þær létt með höndunum til að losa um skinnin, þau fljóta svo upp og það er hægt að taka þau burt.
2/3 bolli appelsínusafi EÐA 2/3 bolli kókosmjólk
4 egg
1 tsk vanilla
2/3 bolli fructose/ávaxtasykur EÐA 2/3 bolli Agave EÐA 2/3 bolli hunang
2/3 bolli kakó duft
2 tsk vínsteinslyftiduft
1 tsk natron

Öllum hráefnum skellt í blender eða matvinnsluvél og blandað vel og rækilega, gæti þurft að skrapa niður hliðarnar til að allt blandist vel saman. Ég setti fyrst baunirnar og öll blautefnin og svo þurrefnin yfir svo að þurrefnin myndu ekki hlaupa í kekki á botninum
Hellt í eldfast mót eða kökumót og bakað við 180 C í 50 mínútur.
Leyfið henni svo að kólna og setjið krem að eigin vali ofan á. Hún er frekar lengi að kólna, ég skellti henni inn í ísskáp til að flýta fyrir þar sem ég var á hraðferð.

Þessi uppskrift dugar alveg fyrir 8 manns, ég geri oft 1/2 í litlu eldföstu móti ef það eru bara við 4. Ætla líka að prófa næst þegar ég geri hana að gera hana í möffinsformum og sjá hvernig það gengur.

EDIT:
Kannski best að uppfæra, hef bakað þessu hér heima fyrir börnin og þeim fannst hún góð, vorum með gesti í kaffi, vinkona mín, maðurinn hennar og 3 börn og öllum fannst hún fín, tveggja ára dóttur vinkonu minnar var hin mesta dúlla, komin með súkkulaði út um allt andlit að biðja um meira.
Ég hef líka bakað þessa í vinnunni hjá mér og þar fékk hún góða dóma og ein stelpa sem ég þekki hefur bakað hana fyrir tengdafjölskyldu sína sem er ekki á sérfæði og þar féll hún líka í góðann jarðveg.

Á stefnuskrá er að gera tilraun með að gera hana eggja lausa, veit ekki alveg hvenar ég kemst í það en mun uppfæra ef það gengur vel.

mánudagur, 29. september 2008

Franskar

Ok þetta er ekki uppskrift heldur græja sem ég ætla að fjalla um núna. Yfirleitt er ég alls engin græjumanneskja þegar kemur að eldhúsáhöldum, ég á töfrasprota, mortel, handþeytara og sílikon möffins form. Þar með er eiginlega upp talið það sem ég á sem flokkast ekki undir alveg basic eldhúsáhöld. Ég á ekki matvinnsluvél, hrærivél, ísvél, brauðvél og þar fram eftir götunum, á reyndar blender en hef notað hann 2-3 í Boozt eða slíkt, er farin að nota töfrsprotann frekar en blenderinn í það. Ég á 2 brauðform, 2 möffinsform (6 möfins í hvort) og 3 eldföst mót. Ég á alls ekki kökumót og ofnmót í öllum stærðum og gerðum og hef hreinlega ekki pláss fyrir þessháttar í litlu miðbæjaríbúðinni sem við búum í.
Mér finnst eldhúsáhöld sem gera bara eitthvað eitt ákveðið algjör sóun á peningum og plássi. Sérstaklega plássi þegar eldhúsið er jafn lítið og okkar.
En í sumar þá var mamma með sér grind eða bakka fyrir franskar, fyrst þegar ég sá þetta fannst mér þetta eiginlega bara asnalegt, sá ekki tilganginn með þessu. En svo bjó hún til franskar, einföldustu franskar í heimi, hún skar niður kartöflur, skellti þeim á þessa grind og á c.a 20 mínútum voru komnar æðislegar franskar, stökkar að utan, mjúkar í miðjunni og úr engu öðru en kartöflum, engin fita eins og í þessum forsteiktu sem maður kaupir frosnar út í búð. Ferskar og ég get haft þær lífrænar, kaupi bara lífrænar kartöflur,
Þegar ég spurði hvar hún hafði keypt þetta þá var það bara í Bónus. Þetta er í raun mjög einfaldur bakki, með götum á. Götin valda því að það loftar vel um kartöflurnar þannig að þær verða ekki mauk kenndar eins og vill einstaka sinnum gerast í eldföstum mótum og þær eru enga stund að eldast miðað við sambærilegt í eldföstu móti.
Mamma saltar sínar eftir á en mér finnst betra að létt salta þær áður en ég set þær inn í ofn, en þær eru alltaf góðar hvort sem maður gerir.

laugardagur, 27. september 2008

Heill kjúklingur með Thailenskum keim

Mig langaði í eitthvað ferskt og með thailenskum keim í kvöld en samt eitthvað sem að börnin myndu borða, var með heilan kjúkling í ísskápnum sem ég hafði planað að hafa í matinn þannig að ég notaðist við hann. Notaðist við svipað bragð og er í Laab gai salatinu en bara mun mildara og ögn einfaldara.

Uppskriftin kallar á :
1 heilan kjúkling
1 heilan hvítlauk
2 lime
1 tsk af góðu thailensku chilli
1 lítið búnt af myntu
1 rauðlauk
2 msk olía
Salt (ég notaði maldon salt)

Ég byrjaði á að mauka alla hvítlauksgeirana í morteli (alveg hægt að nota hvítlaukspressu) og blandaði chilli duftinu við. Kreisti svo safannn úr 1 og hálfu lime og hrærði saman við. Hellti helmingnum af blöndunni í skál.
Bætti út í skálina 1 grófsöxuðum rauðlauk, myntunni grófsaxaðari, hálfu lime skorið í báta, olíu og góðri klípu af salt. Veltu þessu öllu saman og kramdi aðeins með höndunum. Tók kjúklinginn og fyllti hann með þessari blöndu. Hellti safanum sem var eftir í skálinni með inn í kjúklinginn.
Setti kjúklinginn í eldfast mót og penslaði restinni af lime, hvítlauks chilli blöndunni yfir hann og stráði annari vænni klípu af salti yfir. Hellti c.a dl af vatni í botninn á eldfasta mótinu. Inní ofn við 180 gráður í c.a 90 mínútur (var með frekar stóran kjúkling)
Fyllingin kryddaði kjötið alveg frábærlega innan frá með lime og myntu og smá keim af chilli. Æðislegur en einfaldur kjúklingur.

Snakk í kvöldmat.

Krakkarnir héldu að ég væri endanlega búin að missa vitið í gærkvöldi þegar ég kallaði á þau til að koma að borða. Ég eldaði sömu kjötblöndu og ég nota í Taco´s, skar niður fullt af grænmeti frekar smátt og bar á borð með Nacho´s flögum. Það skiptir auðvitað máli hvernig Nacho´s flögur eru notaðar, þær sem ég notaði voru bara létt saltaðar og með nákvæmlega sama innihaldi og Taco skeljarnar sem ég nota í svo til sömu hlutföllum. En þeim fannst þetta þvílíkt sport og töldu að sjálfsögðu að þau væru að borða eitthvað sem að ætti í raun ekki að borða í kvöldmat. :)

miðvikudagur, 24. september 2008

Laab Gai, Thailenskt kjúklingasalat (FULLORÐINS)

Þetta thailenska kjúklingasalat er í miklu uppáhaldi hjá bæði mér og manninum mínum en við höfum ekki lagt í að gera það fyrir börnin þar sem það er allt of sterkt, geri þá bara einfalt og mildara kjúklingasalat fyrir þau.
500 gr kjúklingakjöt, skorið smátt.
6 Hvítlauksgeirar, maukaðir
2 litlir bitar Galanga (fæst í asískum verslunum) ristaðir og muldir.
3 teskeiðar þurrkuð, ristuð fínt mulin tailensk chilli.
3-4 Msk Nam bplah (fish sauce) lesið vel á miðann því sumar innihalda glúten, sjaldgæft en kemur fyrir.
Safinn úr 2-3 Lime.
2 Vorlaukar fínt saxaðir (bara hvíti parturinn)
1/2 rauðlaukur, fínsaxaður.
1/2 bolli söxuð mynta
2 Msk ristuð mulinn grjón (Ristið hrísgrjón á þurri pönnu þar til þau eru gullin, hristið allan tímann svo þau brenni ekki og myljið svo í morteli)

Steikið kjúklinginn á pönnu og hrærið saman við hann Lime safa, hvítlauk, Nam bplah, chilli, galanga. Leyfið svo að kólan þar til það er við stofuhita og hrærið rauðlauk, vorlauk og myntu saman við. Hellið síðan ristuðu grjónunum yfir og hrærið saman við.
Ég borða þennan rétt þannig að ég set skammt af honum á Iceberg blað, vef því utan um og borða á svipaðann hátt og ef þetta væri Burritos.

Hef síðan mikið af skornu grænmeti með, gúrku, papríku, ferskum baunabelgjum og maðurinn minn vill rifnar gulrætur með. Sýð einnig hrísgrjón með.

mánudagur, 15. september 2008

Innihhaldslýsingar

Þessi síða: http://www.gfcfdiet.com/unacceptable.htm er með nokkuð ítarlegan lista um innihaldsefni sem innihalda glúten eða Casein (mjólkurprótein). Listinn er á ensku en hefur komið mér að góðum notum. Vonandi nýtist hann öðrum einnig.

föstudagur, 12. september 2008

Kjúklinganaggar

Ég ætla að byrja á því að biðjast afsökunar á því hvað það er langt síðan að ég hef bloggað. Var erlendis í 2vikur, brákaði svo á mér únliðinn seinasta daginn úti þannig að það hefur ekki farið mikið fyrir tilrauna eldamennsku hér á bæ seinasta mánuðinn eða svo.

En nú er kominn tími á að byrja aftur að blogga.

Kjúklinganaggar eru vinsælir hjá svo til öllum börnum. Þessi uppskrift er einföld og nokkuð góð, mjög góð að mati barna en ég persónulega er ekkert sérstaklega hrifin af nöggum. Fínt að bjóða upp á í barna afmælum í staðinn fyrir pizzur, pylsur oþh. Eða bara um helgar í staðinn fyrir annan ruslmat. Þeir eru ekki þeir hollustu enda brasaður matur en þú veist allaveganna nákvæmlega hvað er í þeim.

Kjúklingabitar, td kjúklingabringur skornar í bita. Hægt að nota hvaða kjúklingakjöt sem er sem er beinlaust. Blandan dugar fyrir c.a 3 bringur.

Deighjúpur:

1/3bolli Glútenlaust hveiti (Ég nota c.a 80% hrísmjöl og 20% Tapioca mjol)
1/4 tsk salt
1 og 1/2 tsk edik
1/4 tsk Matarsódi
1/3 bolli vatn

Blandið hveitinu og saltinu saman í skál, í annari skál blandið þið saman Matarsóda og ediki, hellið edik blöndunni yfir hveitið og svo vatninu strax yfir. Hrærið vel. Látið standa í 5 mínútur og þá mun blandan þykkna. Setjið svo kjúklingabitana í deig blönduna og látið standa í henni meðan að þið hitið olíu á pönnu. Þegar olían er orðin heitið steikið þá bitana á pönnunni þar til þeir eru gullinbrúnir og bitarnir eru gegnsteiktir.

sunnudagur, 17. ágúst 2008

Amerískar pönnukökur (lummur)

Pönnukökur eru mjög vinsælar hér.
Þessar eru þægilegar því ekki þarf sér pönnu fyrir þær. Þær eru vinsælastar hér sem amerískar pönnukökur með sýrópi. Þá nota ég Agave sýróp út á þær.

1 og 1/2 bolli Hrísmjöl
3 msk Maís mjöl
2 msk Kartöflumjöl
1 1/2 tsk vínsteinslyftiduft
1 bolli hrísgrjónamjólk
1/2 tsk salt
2 egg
3 msk olía
1 bolli eplamauk
1 tsk sítrónusafi (má sleppa)

Öllu hrært vel og vandlega saman þar til blandan er kekkjalaus. Steikt á pönnu við miðlungshita, hægt að gera þær litlar í lummustærð eða stærri sem amerískar pönnukökur.


sunnudagur, 10. ágúst 2008

Eggjagrjón

Einfaldur hádegismatur sem er hægt að gera á ótal vegu og hráefnin fást í svo til öllum matvöruverslunum um land allt.

Grænmeti að eigin vali, við notum oft lauk, hvítlauk, engifer, papríku, sveppi, kúrbít, gulrætur, frosnar grænar baunir og ýmislegt fleira. Létt steikt á pönnu.

Hrísgrjónum bætt við, c.a einn bolli af soðnum hrísgrjónum (fínt til að nýta afgangs grjón) fyrir tvær manneskjur, gegnhitað.

Kryddað eftir smekk, td er gott að nota Tamari sósu(en þá ekki soyalaust), ýmsar asískar sósur, chilli, svartur pipar. Nota bara það sem til er.

Bætt við hrærðum eggjum c.a 3-4 egg fyrir 2. Steikt þar til eggin eru elduð.

Borið á borð með til dæmis Salati og hrökkbrauði með Hummus.

Auðveld uppskrift til að vera með bak við eyrað þegar maður er að ferðast, það þarf ekki að nota neinar glúteinlausar eða Caseinlausar (mjólkurlausar) sérvörur frekar en maður vill.

fimmtudagur, 31. júlí 2008

Hlaup (Jello)

Krökkum finnst Jello skemmtilegt. Ókosturinn við Jello er að það er sykur og vatn, bragðefni og gelatin.
Nýja uppáhaldið hér er Hlaup gert úr ávaxtasafa og Agar dufti. Mjög einfalt og lítil vinna.
Leiðbeinigarnar á Agar duftinu sem ég nota segja að það þurfi 1/2 tsk af Agar dufti á móti 250ml af vökva, mér finnst halupið vera í það stífasta þannig og nota því 1/2 tsk af Agarduftinu á móti 300ml af vökva.
Eina sem þarf að gera er að blanda saman í pott ávaxtasafa að eigin vali og agardufti, koma upp suðu og leyfa að sjóða í 2 mínútur. Hellt í skál eða form og kælt í ísskáp í c.a 4 tíma.
Ef safinn er ekki nógu sætur er hægt að sæta hann með Agave Sírópi.

Skemmtileg útfærsla er að gera einn skammt af hlaupi og setja í glös, c.a 1/3 af glasi. Þegar hlaupið er orðið nokkuð stíft eftir c.a klukkustund í kæli eru sett ýmis ber ofan á fyrsta lagið og hellt nýjum skammti af halupi yfir. Hægt að nota mismunandi litaðaðan ávaxta safa. Kælt í c.a 4 tíma.

laugardagur, 26. júlí 2008

Útilegumatur

Við vorum á ættarmóti um daginn, sofið í tjöldum og allt það. Áður en við fórum var ég hálf áhyggjufull um að erfitt yrði að finna hentugan mat í útilegu sem að börnin myndu borða. Ég vildi heldur ekki vera að stressa mig of mikið yfir einhverri matargerð á ættarmótinu sjálfu. En það hafðist og ferðin var mjög ánægjuleg í alla staði.


Í morgunmat vorum við með Cornflakes, glútenlaust meusli http://krakkamatur.blogspot.com/2008/06/granola-ii-muesli-hnetulaust.html

og poppað Hirsi með hunangi (fæst í maður lifandi Hirse Honnig Poopies frá Allos) og Isola hrísgrjónamjólkin út á. Síðan voru í boði ávextir með.


Í hádegismat fyrri daginn var í boði Pizza bollur http://krakkamatur.blogspot.com/2008/07/pizzu-bollur.html

Ágætt að taka þær úr frysti daginn áður og leyfa að þiðna í kæliboxinu. Einnig voru í boði harðsoðin egg (sauð þau áður en við lögðum af stað) Skólagúrkur og kirsuberjatómatar og desert grjónagrautur http://krakkamatur.blogspot.com/2008/06/desert-grjnagrautur-hnetulaust.html sem var gerður áður en við lögðum af stað. Bjó til stóran skammt og sett í box með loftþéttu loki.


Í kvöldmat var svo bara grillað kjöt, grænmeti með og ég keypti tómatsósuna frá Himnesk hollusta fyrir börnin. Hún er að mínu mati nákvæmlega eins og venjuleg Heinz eða Hunts tómatsósa en úr mun hollari hráefnum.

Móðursystir mín gerði eitt mjög sniðugt, áður en hún kom skar hún niður kjúklingabita og þræddi upp á járn tein. Þessu var svo pakkað í plast, kælikubbur sett sitthvorum megin við og aftur pakkað í plast. Ég hef alltaf verið smeyk við að grilla kjúkling því ég er alltaf viss um að hann verði hrár í miðjunni hjá mér en vegna járnteinsins fer líka hiti inn í bitana. Mér finnst líka óþægilegt að ferðast með hráan kjúkling en þessu var svo kyrfilega pakkað að engin hætta var á að blóðvökvi læki í annan mat og hélst vel kalt.
Í hádegismat hinn daginn var í boði hrökkbrauð (Ég nota Crispread frá Amisa, eina sem ég hef fundið sem er líka sykurlaust) og mais popp kex með Hummus (gerði hummus áður en við lögðum af stað). Skólagúrkur og kirsuberjatómatar. Harðsoðin egg og Desert grjónagrautur.


Í kvöldmat var sameiginleg máltíð, heil grilluð læri (frekar mörg enda um 170 manns í mat) einnig var salat, grillaðar kartöflur, grillbrauð og sósa. Hvorki grillbrauðin né sósan var í lagi fyrir okkur. Ég bjó til grillbrauð fyrir okkur http://krakkamatur.blogspot.com/2008/07/grillbrau-ea-snbrau.html en nennti ekki að stand í sósugerð og því var bara tómatsósan frá himnesk hollusta í boði með. Í staðinn fyrir gos var í boði sódavatn og eftir matinn grilluðu börnin sér glútenlaus snúbrauð úr restinni af deiginu frá grillbrauðunum meðan að hin börnin notuðu afgang af deiginu sem grillbrauðin höfðu verið gerð úr.


Á milli mála báða dagana var í boði Larabar, meusli stangir, Ávextir bæði ferskir og þurrkaðir, harðfiskur og snakk. Vatn og Ávaxtasafar. Einnig bakaði ég muffins http://krakkamatur.blogspot.com/2008/05/bkuum-banana-mffins-me-kaffinu-dag.html

sem er hægt að taka úr frysti þegar lagt er af stað og leyfa því að þiðna í kæliboxinu.


Ég vissi það að flest börnin þarna myndu grilla sykurpúða og tók því með Rice and Rice búðing handa börnunum til þess að fá í staðinn, þau voru búin að fá sportið við að grilla sjálf en vildu auðvitað eitthvað sætt þegar hin börnin fengu eitthvað sætt. Rice and Rice búðingur telst sem svindl hjá okkur þar sem að hann inniheldur maís sýróp en maður verður að leyfa eitthvað smá á ættarmóti ;)


Þægilegast er að vera með ávexti og grænmeti sem þarf lítið að skera. Epli, mandarínur, banana, vínber, jarðarber og kiwi td og litlar snakk eða skólagúrkur og kirsuberja eða konfekt tómata.

fimmtudagur, 24. júlí 2008

Grillbrauð eða Snúbrauð

Við fórum á ættarmót um seinustu helgi og vitandi það að það yrði boðið upp á grill brauð með matnum og snúbrauð eftir matinn fyrir börnin að dunda sér við, þá varð ég að finna glúteinlausan staðagengil.
Fyrir þessa uppskrift þá hrærði ég öllum þurrefnunum saman í skál með loki áður en við lögðum af stað. Það tók innan við 2 mínútur á staðnum að finna til restina af hráefnunum og hræra þessu saman. Ég byggði mína útfærslu á þessari uppskrift: http://www.vefuppskriftir.com/uppskrift/snubraud.html

1 bréf ger
100gr Hrísmjöl
100 gröm maísmjöl
50gr kartöflumjöl
50gr Bókhveiti
25gr Tapioca mjöl
100 gröm maísmjöl
1 og 3/4 dl hrísgrjónamjólk
1 tsk ávaxtasykur
¼ teskeið salt
30 gröm brætt mjólkulaust smjörlíki eða olía
1 egg
1 teskeið trefjar (Psyllium husk powder)

Fyrir Grillbrauð þarf að auki álpappír og auka olíu. Ég strauk smá olíu yfir álpappírs örk og bjó svo til nokkrar litlar kökur. Svo lagði ég aðra örk af álpappír yfir sem var einnig smurð með smá olíu. Þá varð auðvelt að snúa brauðunum við án þess að þau dyttu á milli rimlanna á grill grindinni. Grillað þar til brauðin er farin að brúnast vel á báðum hliðum. Passa þarf að hafa þau frekar þunn svo þau bakist í gegn án þess að brenna að utan.

Fyrir snúbrauðið þarf bara að finna hentugt prik. Best er að setja smá olíu á hendurnar svo deigið festist ekki við þær. Ég rúllaði svo út smá pylsu sem var vafin um prikið. Sama á við hér, passa að hafa deigið nógu þunnt til þess að það bakist í gegn. Svo dunda börnin sér bara við að grilla brauðin.

mánudagur, 7. júlí 2008

Pizzu bollur

Bjó til pizza bollur í hádeginu í dag. Notaðist við brauð uppskriftina sem ég nota yfirleitt en gerði bara hálfa. Það skilaði sé í 12 "bollum" eða í raun muffins því ég bakaði þetta í sílikon muffins formum.

Brauð hlutinn:
150gr Hrísmjöl (rice flour)
50gr Kartöflumjöl
25gr Tapicoa mjöl
25gr Bókhveiti eða Gram (kjúklingabauna) hveiti
25 gr sesamfræ
25 gr sólblómafræ
1/4 tsk salt
1,5 msk Vínsteins lyftiduft
185ml af Hrísgrjónamjólk (það er í lagi að nota soyamjólk ef þið þolið soya)
40 gr eplamauk
100gr rifinn kúrbítur (c.a hálfur kúrbítur af meðalstærð)
1/2 tsk edik
1 egg
2 msk olía (má sleppa ef ætlunin er að borða nýbakað en þær frystist illa án olíu)

Pizzasósan.
400gr Grunn tómatsósa http://krakkamatur.blogspot.com/2008/05/grunn-tmatssa-hnetu-og-fisk-laust.html
EÐA
1 400gr dós niðursoðnir tómatar, maukaðir í matvinnslu vél eða með töfrasprota
120gr Tómatpúrra
1 hvítlauksrif, maukað
Svartur pipar
Oregano
Basil
Steinselja
Múskat

Byrjið á pizzusósunni, setjið tómatsósuna í pott og komið upp léttri suðu, leyfið að malla í 3-4 mínútur. Blandið þá tómatpúrrunni við og kryddið hana til eftir smekk. Setjið hana til hliðar og leyfið henni að kólna aðeins.

Stillið ofninn á 200 gráður celsíus

Byrjið á brauðinu.
Þurrefnum hrært saman í einni skál og blautefnum í annarri. Síðan er þurefninu hrært út í blautefnin.

Setjið botnfylli af deiginu í hvert möffins form. Setjið svo matskeið af pizzusósunni ofan á það. Hyljið svo með meira brauðdegi.

Bakist við 200 gráður í c.a 30 mínútur.

sunnudagur, 6. júlí 2008

Muesli stykki

Ég hef átt í erfiðleikum með að finna mueslistykki sem við getum notast við. Ég hef keypt Wallaby stykkin handa börnunum og finnst þeim þau góð. Þau eru bæði með jógúrt húðuð sem eru á bannlista og önnur sem eru ekki húðuð. Ég sjálf má ekki fá þau því sojaóþol hefur verið að koma í ljós og mér finnst alltaf skemmtilegra að við getum öll borðað sama matinn. Því hef ég búið til mín eigin.

Hráefni:
2 bollar kókosmjöl
1 bolli Hirsi flögur
1/2 bolli Quinoa flögur
1 og 1/2 bolli rúsínur
2 bollar sólblómafræ
1/3 bolli sesam fræ
3/4 bollar jarðhnetur (Ég nota saltlausar, set þær í poka og brýt frekar smátt með kökukefli)
1/2 bolli þurrkaðir ávextir
1/2 tsk salt
1 bolli hunang
1 tsk vanilla
1/2 bolli hnetusmjör


Aðferð:

Hrærið saman hunangi, vanillu og hnetusmjöri í skál. Blandið restinni af hráefnunum saman við. Setjið bökunarpappír í stórt eldfast mót, berið olíu á hendurnar á ykkur og setjið blönduna í mótið. Ýtið blöndunni þétt niður. Bakið við 135 gráður Celsíus í 50-60 eða þar til gullið brúnt. Fjarlægið þá úr ofninum og þjappið aftur niður. Leyfið þessu að kólna aðeins og skerið svo í bita, setjið í litla plastpoka og þá eruð þið með litla snarl poka til að grípa með ykkur ef þið eruð að skreppa eitthvað. Geymið annars í loftþéttu íláti.


laugardagur, 5. júlí 2008

Guacamole (Fullorðins?)

Mér finnst guacamole ómissandi með Taco´s, börnin eru ekki sammála mér en ég vona að þau læri að meta guacamole með aldrinum.
Svona geri ég það.
Ég nota:

1/2 lítinn rauðlauk, fínsaxaðan
4 tómata, fínsaxaða. Ég skrapa megnið af fræjunum innan úr.
1 grænt chilli, fræhreinsað og fínsaxað
1/2 lítil græn papríka, fínsöxuð
1 msk fínsaxaður ferskur Kóríander (sleppi þessu stundum)
2 stór þroskuð avakadó
1 msk lime safi (nota sítrónu ef ég fæ ekki lime)
1 msk Ólifu olía
salt og pipar eftir smekk

Ég sker Avakadóin í tvennt og skrapa innan úr þeim með skeið. Stappa innihaldið með skeið og bæti við það lime safa og olíu. Hræri síðan við öllu hinu.

Ég kem oft með ferskt guacamole með mér ef ég þarf að taka eitthvað með í veislur. Þá blanda ég öllu saman nema avakadóinu og stappa avakadóið og hræri öllu saman þegar ég kem á staðinn. Borið fram með Nacho flögum.

Ég nota líka oft Guacamole sem álegg ofan á svo til hvað sem er.

Taco´s

Vorum með Taco í matinn í gær, svona það næsta sem við komumst ruslfæði.
Taco mixin sem fást í pökkum eru yfirleitt með einhverju í sem við bjóðum ekki upp á. Þess vegna gerum við Taco frá grunni.
Í það notum við:

500gr nautahakk
250 gr Nýrnabaunir (yfirleitt þá um 400gr dós, restin er vökvinn)
400gr Grunn tómatsósa, eða samsvarandi magn niðusrsoðnir tómatar.
80 gr tómatpúrra
2 dl vatn
1 súpukrafts teningur
1 laukur, fínsaxaður
1-3 hvítlauksgeirar kramdir
Kryddað til með pipar, chilli, oregano, steinselju, basil og múskat.

Brúnið laukinn og hvítlaukinn á pönnu, steikið svo hakkið með.
Færið kjötblönduna yfir í pott og bætið við tómatsósunni (niðursoðnum tómötum), tómatmaukinu, vatninu, súputeningnum og nýrnabaununum.
Kryddið eftir smekk en kryddið minna en þið teljið þurfa, bragðið á eftir að magnast.
Leyfið þessu að malla við lágan hita í hálftíma eða jafnvel lengur, bætið við smá vatni ef þetta fer að verða of þurrt. Áður en það er borið fram smakkið þá á því og bætið við kryddi ef ykkur finnst vanta.

Saxið svo niður ferskt grænmeti og hitið Tacoskeljarnar í ofni eftir leiðbeiningum á pakkanum.
Krökkunum finnst gaman að setja sjálf í skeljarnar.
Fínt að hafa Taco sósu, Salsa og guacamole með einnig.

Þær taco skeljar sem ég hef keypt innihalda ekkert glútein, eru úr mais mjöli sem eru náttúrulega glúteinlaust. Lesið samt utan á pakkann til öryggis, ég hef séð taco skeljar líka sem innihalda hveiti.

föstudagur, 27. júní 2008

Granola II (muesli)

Önnur útgáfa af Granóla, ég borða muesli á hverjum morgni, stelpunni finnst það fínt stundum en strákling finnst það ekkert spes.

1 bolli Quinoa flögur
1 bolli Hirsi (millet) flögur
1 bolli kókosmjöl
1/2 bolli Sólblómafræ
½ bolli jarðhnetur, saltlausar og grófmuldar.(Sleppið ef þið viljið hnetulaust)
¼ bolli hörfræ
¼ bolli sesamfræ
1/4 bolli Agave Síróp
2 msk Hunang
Rúsínur og aðrir þurrkaðir ávextir eftir smekk.

Blandið saman i skál öllum hráefnunum nema þurrkuðu ávöxtunum. Blandið saman með fingurgómunum þannig að Agave sírópið og hunangið dreifist jafnt en reynið að kremja ekki flögurnar.
Dreifið úr blöndunni á 2 ofnskúffur með bökunarpappír á. Setjið í 100 gráðu heitan ofn og passið að hafa blásturinn EKKI á. Bakist í 20 mínútur en hrærið í blöndunni og dreifið aftur úr henni allavegann tvisvar sinnum. Lækkið hitann í 50 gráður og bakið áfram þar til gullið og engin raki er eftir í blöndunni. Tekur c.a 20 mínútur og hrærið annarslagið í blöndunni á meðan.
Þegar þið takið blönduna úr ofninum bætið þá þurrkuðu ávöxtunum við, leyfið blöndunni að kólna og geymið í loftþéttu íláti.

fimmtudagur, 19. júní 2008

Hvar fæst hráefnið!

Hráefni í Glúten, mjólkur og sykurlausan mat fæst víðsvegar.
Ég ætla koma með smá lista um þá staði sem ég hef fundið og notað.

#Góð heilsa gulli betri er á Njálsgötu 1 og er með eitthvað af glútenlausum vörum og einhverjar mjólkurstaðgengilsvörur.

#Yggdrasill á skólavörðustíg eru með ágætt úrval af glútenlausum mat, einnig mjólkurvöru staðgengla og ýmislegt annað td agave síróp, carob og margt fleira.

#Heilsuhúsið er einnig með eitthvað af vörum. Svipað úrval og Yggdrasill þannig séð en ekki allt sömu vörurnar. Ég mæli með að þð kynnið ykkur íbúakort heilsuhússins.
http://www.heilsuhusid.is/klubburinn/

#Maður lifandi er með þokkalegt úrval.

#Sumar hagkaups verslanir eru með ýmislegt, ég hef bara farið í lífsins lind í hagkaup í kringlunni.

#Asískar verslanir eru með ýmislegt. Ég hef notast við Fillepeysku búðina á horninu á hverfisgötu og barónstíg og fæ td ódýrasta hrísgrjónahveitið sem ég hef fundið þar. Einnig fæ ég þar Tapioca hveiti, Tamari sósu, kókosmjólk, ýmsar hnetur og fræ og margt fleira og það mun ódýrara en í heilsuvöru verslununum. Einnig hef ég verslað ýmislegt í Mai Thai á laugaveginum beint á móti Hlemm.

#Rangá í skipasundi er með þokkalegt úrval af glútenlausum vörum en því miður innihalda flest allar sykur. Flestar vörurnar hjá þeim voru frá semper.

#Bónus er með einhverjar mjólkurstaðgengilsvörur en mismunandi úrval eftir verslunum. Það sem ég hef séð hjá þeim er Provamel Soyamjólk, Rice and Rice hrísmjólkin og Rice Dream hrísmjólkin. Athugið að Rice Dream er EKKI glútenlaus. Einnig er Bónus með Sollu vörurnar og einnig fæst Larabar þar sem er laust við Glúten, mjólk og sykur. Bónus er með nánast engar glútenlausar sérvörur.

#Krónan er með mjólkurstaðgengilsvörur, glútenlaust morgunkorn en annars svipaðar vörur og heilsuvöru hillur í Bónus. Mun meira er samt í Krónunni af lífrænum og Eco vörum. Ég sjálf hef bara farið í Krónuna á Granda.

#Fjarðarkaup er með bestu heilsuvörudeild í venjulegri verslun sem ég hef séð á Íslandi, einnig eru þau með gott úrval af glútenlausri sérvöru.

#Græna Torgið í blómaval er með eitthvað af mjólkurstaðgengilsvörum, takmarkað af glútenlausum en ágætt úrval af súputeningum sem innihalda hvorki sykur né MSG. Eru með mjög gott úrval af lífrænni matvöru og lífrænum ávöxtum og grænmeti.

Óla Brauð (kúrbítsbrauð)

Alltaf er maður að reyna að auka næringargildi matarins hjá börnum, helst án þess að þau viti að þau séu að borða eitthvað öðruvísi en venjulega. Maður rífur niður allskonar grænmeti til að fela það í td bolognese sósu.
Reyndar eru börnin hér mjög dugleg að borða flest grænmeti og einnig ávexti en ég reyni að fela grænmetið sem þau eru ekki jafn hrifin af.
Kúrbítur inniheldur td Fólín, A-Vítamín, Mangan og Kalíum. Einnig er hann talinn mjög góður fyrir meltinguna.

Þess vegna ákvað ég að reyna að troða því í brauðuppskrift. Hún byggist á sama grunni og Basic Brauð uppskriftin en er með ýmsum viðbótum sem auka næringargildi hennar.
Endilega prófið ykkur áfram með olíublöndur, hér notaði ég eina msk af hörfræolíu, eina af kókosolíu og tvær msk af ólifuolíu.
Þessi uppskrift gerir tvö brauð ef þið eruð með venjuleg brauðform, eitt ef þið notið extra langt brauðform. Ég afhýði kúrbítinn því það er ekki fræðilegur að ég geti sannfært börnin um að það eigi að vera grænir bitar í brauðinu ;)

300gr Hrísmjöl (rice flour)
100gr Kartöflumjöl
50gr Tapicoa mjöl
50gr Bókhveiti eða Gram (kjúklingabauna) hveiti
50 gr sesamfræ
50 gr sólblómafræ
1/2 tsk salt
3 msk Vínsteins lyftiduft
290ml af Hrísgrjónamjólk* (það er í lagi að nota soyamjólk ef þið þolið soya)
80 gr eplamauk
200gr rifinn kúrbítur (c.a einn kúrbítur af meðalstærð)
1 tsk edik
2 egg
4 msk olía (má sleppa ef ætlunin er að borða það nýbakað en það frystist illa án olíu)

*Rice Dream er EKKI glútenlaus, ég nota oftast Isola.

Þurrefnum hrært saman í einni skál og blautefnum í annarri. Síðan er þurefninu hrært út í blautefnin.
Bakist við 200 gráður celsíus, án blásturs í c.a 50 mín

Leyfið brauðinu að kólna alveg áður en þið reynið að skera það.

mánudagur, 16. júní 2008

Bakaður fiskur

Mamma bjó oft til bakaðan fisk þegar ég var krakki. Bakaði fiskurinn var í miklu uppáhaldi en ég þoli hann illa í dag eins og mamma gerði hann. Hún gerði hann úr saltfiskafgöngum en ég þoli illa saltmagnið. Ég elda heldur aldrei saltfisk þannig að ég á aldrei afganga af honum.
Ég elda hinsvegar mjög oft fisk. Þegar ég elda fiskrétt þá sýð ég oft smá auka fisk. Þar sem ég er oftast með hrísgrjón með fisk þá sýð ég auka hrísgrjón með matnum. Þá er ég komin með helstu hráefnin í fljótlegan afganga rétt sem krökkunum finnst alveg frábær.
Það er engin bein uppskrift með mælieiningum sem ég nota en ég geri hann svona.

Fisk afgangar og hrísgrjóna afgangar settir í skál, örlítið meira af hrísgrjónunum.
Eggjum bætt út í og hrært við með handþeytara (eða hrærivél) þar til þetta er orðið að nokkurskonar soppu.
Dijon sinnep bætt við eftir smekk, ég nota c.a 2 msk í lítinn 3-4 manna skammt .
Sett í ofnfast mót.

Kókosmjöl sett í aðra skál og smá olíu bætt við þar til kókosmjölið er rétt byrjað að klístrast saman. Kókos blöndunni er stráð yfir fiskblönduna.

Bakist við 180 gráður í 20-30 mínútur. Kókosinn verður fallega gullinn.

laugardagur, 7. júní 2008

Desert grjónagrautur!

Það er auðveldlega hægt að gera mjólkurlausan grjónagraut
Fann þessa uppskrift hér http://crunchyparent.com/?p=105
Þetta er eiginlega meiri desert grautur að mínu mati en hinn klassíski íslenski.
Þetta var eftirmatur í kvöld og börnin kláruðu allt, báðu um meira og liggur við sleiktu innan úr skálunum þegar allt var búið, tja þær voru allaveganna vel skrapaðar að innan.
Ég tvöfaldaði uppskriftina því mér fannst heil vanillustöng of mikið fyrir einfalda uppskrift.

3 bollar soðin hrísgrjón
3 bollar hrísgrjónamjólk*
1/2 tsk salt
2 msk kókoshnetu olía
6 msk hunang
2 tsk kanill
2 egg
2 tsk gluten laust hreint vanillu extract EÐA 1 vanillustöng. Ég fann ekki nógu gott vanillu extraxt þannig að ég skar vanillustöng í tvennt, skrapaði innan úr henni ofan í pottinn og henti svo stönginni líka með í pottinn.

*Ekki öll hrísgrjónamjólk er glútenlaus. Rice Dream er það td ekki. Ég nota Isola.

1. Blandið öllu saman í pott NEMA egginu. Komið upp suðu og látið rétt svo sjóða í 15-20 mínútur (Ef þið notið extract sleppið því þá líka)
2. Í skál þeytið þá eggin með písk, bætið svo blöndunni úr pottinum í smá skömmtum út í eggin og þeytið vel á milli með písk. Mikilvægt að gera þetta á þennan hátt annars fáið þið eggjahræru í grautinn. Setjið svo aftur í pottinn, komið upp suðu og rétt viðhaldið henni í c.a 2 mínútur.
3. Ef þið notið vanillu extract bætið henni þá við hér, ef þið notið vanillu stöng takið hana þá úr, hún hefur gert sitt gagn. Setjið í skál, plastfilmu yfir og kælið.

Bæði gott heitt og kalt.fimmtudagur, 5. júní 2008

Banana muffins breyting!

Sjá "viðbót eftir uppsriftarfikt" í þessari færslu http://krakkamatur.blogspot.com/2008/05/bkuum-banana-mffins-me-kaffinu-dag.html.
Tókst að minnka ávaxtasykurinn um 70 gr eða úr c.a 9 gr per muffins í 3,3 gr per muffins.

Innihaldslýsingar geta verið villandi!

Var að versla í gær og gríp upp kokteilsósu brúsa frá E.Finnsson. Les yfir innihaldslýsinguna og þar er talið upp Vatn, jurtaolía, eggjarauður, tómatþykkni, sinnep, edik, salt, krydd, bindiefni (E 1412, 412, 410, 401) og rotvarnarefni E 202).
Kokteilsósa er alls ekki eitthvað sem er oft í boði hér á bæ en þegar grillveislu vertíð er að hefjast þá er ágætt að hafa einhverja sósu til að grípa í ef maður gleymir að búa til sína eigin.
Horfi á "jurtaolía" og fer að spá hvort það gæti verið soyaolía sem er komin á bannlista fyrir mig, reyndar bara mig þar sem soyaóþol hefur verið að koma í ljós.
Spái svo í "tómatþykkni" og fer að hugsa út í hvort það gæti verið maltodextrín í því eða corn syrup.
Hringi svo í E.finnson og kemst að því að þeir kjósa að sleppa því að setja sykur á innihaldslýsinguna þó að það sé eitthvað sem þeir bæta við. Sinnepið er nefnilega blandað af þeim, sinnepsduft, sykur og eitthvað annað. Ég myndi skilja það ef að þeir keyptu bara sinnep sem væri bætt út í en nei þeir búa það til sjálfir og telja sig ekki þurfa að skilgreina neitt nánar hvað það inniheldur.
Afhverju geta íslensk fyrirtæki ekki tekið upp á sitt einsdæmi að skilgreina nákvæmlega hvað er í vörum þeirra. Allaveganna því sem þeir bæta sjálfir við vörur sínar.
Svo mikið er víst að ég tek ekki sénsinn á því að versla við þá aftur, allaveganna ekki á næstunni.

sunnudagur, 1. júní 2008

Granola (muesli)

Einföld Granola uppskrift sem er mjög góð

1 bolli Quinoa flögur
1 bolli Hirsi (millet) flögur
1/2 bolli kókosmjöl
1/4 bolli sesamfræ
1/4 bolli Agave Síróp
Rúsínur og aðrir þurrkaðir ávextir eftir smekk.

Blandið saman i skál öllum hráefnunum nema þurrkuðu ávöxtunum. Blandið saman með fingurgómunum þannig að Agave sírópið dreifist jafnt en reynið að kremja ekki flögurnar.
Dreifið úr blöndunni á ofnskúffu með bökunarpappír á. Setjið í 100 gráðu heitan ofn og passið að hafa blásturinn EKKI á. Bakist í 20 mínútur en hrærið í blöndunni og dreifið aftur úr henni allavegann tvisvar sinnum. Lækkið hitann í 50 gráður og bakið áfram þar til gullið og engin raki er eftir í blöndunni. Tekur c.a 20 mínútur og hrærið annarslagið í blöndunni á meðan.
Þegar þið takið blönduna úr ofninum bætið þá þurrkuðu ávöxtunum við, leyfið blöndunni að kólna og geymið í loftþéttu íláti.

föstudagur, 23. maí 2008

Basic Brauð

Hér kemur uppskrift af Brauði sem er hægt að nota eins og hún er og einnig er hægt að bæta hinu og þessu við hana.
Var að prófa mig áfram í eldhúsinu í dag.

200gr Hrísmjöl (rice flour)
175gr Kartöflumjöl
75gr Tapicoa mjöl
1/2 tsk salt
3 msk Vínsteins lyftiduft
325ml af Hrísgrjóna eða Soya mjólk
1 tsk edik
2 egg
4 msk olía (má sleppa ef ætlunin er að borða það nýbakað en það frystist illa án olíu)

Þurrefnum hrært saman í einni skál og blautefnum í annarri. Síðan er þurefninu hrært út í blautefnin.
Bakist við 200 gráður celsíus, án blásturs í c.a 45 mín

Við þessa uppskrift er hægt að bæta ýmsum fræjum oþh. Bættum við sesamfræjum og sólblómafræjum í dag og það kom vel út. Notuðum c.a hálfan bolla af hvorri tegund.

Einnig ef þið eigið til bókhveiti þá er hægt að fá fram eðlilegri brauð áferð með því nota smávegis svoleiðis með. Minnkið þá hverja mjöltegund um 10-15 grömm og setjið samsvarandi magn af bókhveiti í staðinn. Liturinn og áferðin er þá nær venjulegu brauði. Ég myndi sjálf líklegast ekki kaupa bókhveiti sérstaklega fyrir þetta brauð en þar sem ég á það alltaf til þá nota ég það.

Einfaldur Kjúklingaréttur.

Þessi kjúklingaréttur er mjög einfaldur og fjölhæfur.

2 litlar 165ml dósir Coconut milk
1 dós tómatpúrra

Þessu er hrært saman í skál

Takið kjúklingabita, hvaða bita sem þið viljið og brúnið við miðlungshita á pönnu. Meðan þeir eru á pönnunni kryddið þá með smá Herbamare, svörtum pipar og nokkrum dropum af Tamari sósu.
Bætið síðan við kryddi að eigin smek, td Chili, Engifer, Hvítlauk, Karrí eða öðru. Einnig er hægt að sleppa auka kryddi.
Þegar bitarnir eru búnir að taka smá lit á pönnunni setjið þið þá í eldfast mót. Hellið sósunni á pönnuna og hrærið til að losa um kryddið á pönnunni. Þegar sósan er orðin gegnheit þá er henni hellt yfir bitana. Allt sett inn í ofn í 30 mín á 200 gráður celsíus.

þriðjudagur, 20. maí 2008

Tahini

Ég nota Tahini svo til bara í hummus og tími ekki að kaupa heila krukku sem skemmist á viku.
Tahini er í raun ekkert nema maukuð sesamfræ.
Ég hendi bara sesamfræjum í mortél og mauka þau í því. Set nokkra dropa af olíu saman við til að mykja upp í þessu.

Hummus/Kæfa

ÉG bý reglulega til hummus til að nota á brauð. Ekki fræðilegur að börnin hjá mér myndu borða eitthvað sem héti hummus þannig að á þessu heimili er hummus bara kæfa.
Ég geri mjög milt hummus fyrir þau en tek stundum smá frá og krydda spes fyrir mig.

100gr soðnar kjúklingabaunir (alveg hægt að nota niðursoðnar í dós)
C.a msk af Tahini. (Ég nota tahini bara í hummus eiginlega, tími ekki að kaupa krukku bara fyrir þetta þannig að ég bý til mitt eigið)
Smá sítrónusafi
1 maukað/pressað hvítlauksrif
1 msk olía (ólífu eða kókos er það sem ég nota)
smá salt

Skelli þessu bara í skál og mauka með töfrsprota eða hendi þessu í matvinnsluvélina.

laugardagur, 17. maí 2008

Pönnukökur

Var að leita af pönnuköku uppskrift og rakst á þessar á http://himneskt.is/

100 g bókhveiti
1/2 tsk. vínsteinslyftiduft
Klípa af salti
1 egg
1 msk. ólífuolía
3 dl hrísgrjónamjólk eða sojamjólk, ég notaði hrísgrjónamjólk með vanillu
smá olía til að steikja upp úr

Þurrefnum hrært saman
Vökva bætt við og öllu hrært vel saman.
Steikt á pönnu eins og venjulegar pönnsur.

Þessar kláruðust á met tíma þó ég hafi margfaldað uppskriftina.

sunnudagur, 11. maí 2008

Banana muffins

Bökuðum banana möffins með kaffinu í dag.
Notaði uppskrift sem ég fann á http://cafesigrun.com/uppskriftir/?ufl=14#uppskrift_399
Þær voru bara mjög góðar, í það sætasta fyrir minn smekk þannig að ég prófa líkast til að minnka sykurinn aðeins næst. Ég notaði silikon möffins form við baksturinn og þær heppnuðust fullkomnlega.
Held að ég prófa líka að skipta út bönunum fyrir eplamauk næst.

Viðbót eftir uppskriftarfikt: Minnkaði ávaxtasykurinn niður í 40 gr og bætti við 80gr krukku af sykurlausu eplamauki (notaði eplamauks barnamat). Kom rosalega vel út en maður þarf að baka muffins kökurnar þar til þær eru byrjaðar að brúnast nokkuð ofaná og leyfa þeim að kólna aðeins lengur til að þær séu nægjanlega stífar í miðjunni.

Bananamuffins
Gerir 12 stykki

 • 200 gr hrísgrjónamjöl (enska: rice flour)
 • 60 gr kartöflumjöl
 • 30 gr maísmjöl (enska: corn flour)
 • 2 tsk vínsteinslyftiduft
 • 1/2 tsk heilsusalt (Herbamare)
 • 3 - 4 stórir, vel þroskaðir bananar (mega vera orðnir blettóttir/svartir).
 • 110 gr ávaxtasykur
 • 1 egg, lauslega hrært
 • 1 eggjahvíta, lauslega hrærð
 • 1 msk kókosfeiti eða ólífuolía
 • 90-120 Hrísgrjónamjólk, soyamjólk eða vatn. Gæti þurft meira eða minna.

  Aðferð:
 • Hitið ofninn í 200°C
 • Sigtið saman allt mjöl ásamt vínsteinslyftiduftinu í stóra skál.
 • Í annarri skál skuluð þið stappa banana vel. Hrærið sykrinum, egginu, mjólkinni og olíunni saman við.
 • Hellið blauta hráefninu saman við þurra og blandið þangað til allt er orðið bel blautt (deigið verður nokkuð blautt)
 • Setjið í möffinsform (siliconform eða venjulegt form með heimatilbúnum möffinsformum, sjá athugasemdir fyrir neðan).
 • Bakið í 20-25 mínútur. • Það er frábært að bæta söxuðum valhnetum eða pecanhnetum saman við og eins er rosa gott að bæta söxuðu carob fyrir þá sem vilja (einnig má nota eitthvað gott, dökkt súkkulaði án viðbætts sykurs)
 • Ef maður notar ekki olíu eða smjör í deigið þá getur maður hvorki notað venjuleg pappírsform, né muffinsbökunarplötuna. Það fást sem sé ekki muffinspappírsform sem maður getur sett í án þess að þurfa að nota smjör eða olíu í deigið. Ég er búin að leita út um allt. Ég hef í staðinn sniðið hringi (strika með penna utan um undirskál) úr bökunarpappír og sett í hvert muffinspláss og svo deigið þar ofan í. Það er hægt að nota möffinspappírinn svo um 6 sinnum. Einnig má nota siliconform og þá þarf ekki bökunarpappír.
Uppskriftin er birt með leyfi CafeSigrun


laugardagur, 10. maí 2008

Fiskiputtar

Fiskiputtar eru vinsælir hér. Ekki þessir bresku, einhver óræður fiskur í braupraspi heldur heimagerðir sem eru mjög einfaldir í gerð.

Fiskur, bein og roðhreinsuð flök.
Kókos mjöl (ekki kókos hveiti heldur þetta venjulega kókosmjöl sem fer ofan á skúffukökur)
Bókhveiti
Egg
Hrísgrjóna eða soja mjólk.

Fiskurinn er skorinn í strimla/lengjur sem eru álíka breiðir og fullorðinsputti.
Blandið kókos og bókhveiti saman í skál eða á disk, 2 hlutar kókos á móti einum af bókhveiti.
Hrærið saman í annari skál eggi og uþb matskeið af mjólkinni, ég nota hrísgrjónamjólk með vanillu.

Veltið fiski puttunum fyrst upp úr eggjablöndunni og því næst upp úr kókos blöndunni, raðið á disk jafnóðum. Reynið að hjúpa fiskinn vel.

Því næst er þetta steikt á pönnu við miðlungs hita, ég nota c.a msk af olíu fyrir hvern skammt. Steikið á öllum hliðum þar til hjúpurinn er gullinbrún. Mér finnst þægilegt að setja hvern skammt jafnóðum á diskinn sem ég ætla að bera þetta fram á og inn í ofn sem er stilltur á 50 gráður celsíus til að halda puttunum heitum.

Stráknum finnst einnig mjög gott þegar ég blanda afgangnum af eggjunum og kókosblöndunni saman og geri lítil buff úr þeim. C.a msk fer í hvert buff.

Krökkum finnst auðvitað gaman að dýfa mat í sósur og þessir puttar eru tilvaldir til þess. Í kvöld notuðum við lítinn skammt af grunn tómatsósunni og krydduðum með örlitlum svörtum pipar, smá hvítlauk, Basil og Oregano. Hægt er að nota hvaða sósu sem ykkur dettur í hug.

Verði ykkur að góðu. :)

föstudagur, 9. maí 2008

Lasagne

500 gr hakk
c.a 350 gr Grunn tómatsósa
Krydd eftir smekk ég nota ferskan hvítlauk, Oregano, Basil, Majoran, svartan pipar og pínulítið múskat.
Glútenlauasar lasagne plötur
Soya ost (ath að soya ostur getur innihaldið mjólkurefni, lesa þarf vel á pakkann eða sleppa honum) þeir sem þola geitaost geta notað hann.

Hakkið er steikt og kryddað eftir smekk, tómatsósunni er bætt út í og látið malla smá stund.
Hluti af kjötblöndunni er hellt í eldfast mót og lasagne plötur þar ofan á, meiri kjötsósa og aftur lasagne plötur þar til kjötsósan er búin. Stráið osti yfir og bakið við 160 gráður celsíus í c.a 45 mín.

Ef gera á eggjalaust þá þarf að passa að lasagne plöturnar séu glúten og eggjalausar.

Grunn tómatsósa

1/4 laukur, fínsaxaður
4 msk olifuolía
1-1,5kg tómatar, afhýddir og grófsaxaðir
Ferskt Basil

Laukurinn er steiktur við lágan hita í olíunni þar til hann mýkist vel.
Tómatarnir settir út í og leyft að krauma við vægan hita í 30-45 mín. Ef ennþá of kekkjótt þá er fínt að fara með kartöflustappara og stappa hana aðeins. Ferskt basil rifið útí.

Þessi sósa frystist vel og er hægt að nota hana í ýmislegt. Út á fisk, yfir glútenlaust pasta eða í lasagne og í raun bara hvað sem manni dettur í hug.

Til að afhýða tómatana er ágætt að setja þá í c.a 30 sek í sjóðandi vatn og þá fer flusið auðveldlega af.

"Súkkulaði" hnetusmjör.

Plat súkkulaði hnetusmjör.

2 msk hnetusmjör (Ég nota hnetusmjörið frá Sollu á grænum kosti. Það er alveg sykurlaust.)
1 tsk agave síróp
1/2 tsk carob duft

Öllu hrært og stappað saman með gafli.


Strákurinn borðar ekki hnetusmjör en honum fannst þetta fínt. Litla frænka mín kláraði sitt glútenlausa hrökkbrauð með "súkkulaði" áleggi og bað um meira.
Fínt í svona laugardags kaffi tíma.

Ástæðan!

Ástæðan fyrir þessu bloggi er sú að mér finnst vanta miðil sem helgar sig að því mataræði sem hentar þeim sem ekki geta borðað glúten, mjólkurvörur og reyrsykur. Til er fullt af frábærum miðlum með hollum mat, glútenlausum mat, mjólkurlausum mat osfrv en ég hef enn ekki rekist á miðil sem helgar sig að uppskriftum sem að forðast allt þetta.
Ástæðan fyrir því að mér finnst vanta þess háttar miðil er að á mínu heimili verður mataræðið glúten, mjólkurvöru og reyrsykurlaust.
Ástæðan fyrir því er tvíþætt. Sú fyrri er að stjúpsonur minn er með Psoriasis og mælt var með þessu mataræði til að halda því í skefjum. Sú síðari er að ég sjálf er með vefjagigt og exem og mælt hefur verið með þessu mataræði fyrir mig.
Ástæðan fyrir nafninu "krakkamatur" er sú að uppskriftirnar sem birtast hér verða uppskriftir sem ég er búin að prófa sjálf og sem börnunum á mínu heimili finnst góðar. Þar af leiðandi er þetta aðallega glúten, mjólkur og reyrsykurlaus krakkamatur.

Þó að allar uppskriftir sem birtast hér eigi eftir að henta glúten, mjólkurvöru og reyrsykurlausu mataræði þá eiga líkast til eftir að detta inn uppskriftir sem henta fólki og börnum með annarskonar matarofnæmi.
Ég kem til með að merkja uppskriftir sem eru hnetulausar, eegjalausar og sojalausar með merkingum í uppskriftasafninu.
Líklega á ég einnig eftir að setja inn eina og eina uppskrift sem mér finnst alveg meiriháttar þó að börnin hafi ekki verið sammála mér. Ég merki þær fullorðins í titli.
Þegar ég segi að uppskriftirnar séu sykurlausar þá á ég við að ekki er hvítur sykur í þeim. Ég kem til með að nota agave síróp, hunang og þess háttar.

Þessi miðill á líklega eftir að fara hægt af stað, ég er sjálf að standa í mikilli tilraunamennsku, uppskriftaleit og aðlögun. Ég set hluti inn nokkurnveginn jafnóðum en þar sem þetta er bara hobbý í hjáverkum þá getur liðið dálítill tími á milli færslna.