fimmtudagur, 27. nóvember 2008

Kókoskúlur

Glútenlaus, mjólkurlaus osfrv bakstur er oft á tíðum flóknari og aðeins tímafrekari en hefðbundinn bakstur, mér finnst það venjast mjög fljótt en það er samt þægilegt að vera með eldfljóta uppskrift sem að krakkarnir geta gert sjálf þegar maður virkilega nennir ekki að baka en þeim langar í eitthvað.
Kókoskúlur er með því einfaldara sem hægt er að gera.

100 gr Kókosmjöl
1 egg
25 gr fructose/ávaxtasykur EÐA 2 msk Agave sýróp

Öllu hrært saman, mótaðar litlar kúlur settar á plötu og bakaðar við um 180 C í 10-15 mínútur eða þar til þær eru gullnar að utan.

Við borðum þessar yfirleitt bara eintómar, mér finnst þægilegt að grípa þær með þegar maður er á ferðinni og maður er eldsnöggur að gera þær áður en maður fer ef því er að skipta.
Uppskriftin er lítil þannig um að gera að margfalda hana eftir þörfum.

Svo er mjög gott að dýfa hálfri kúlunni ofan í brætt súkkulaði (ég nota dökkt, 70%). Fínar þannig ef það er eitthvað sérstakt í gangi eða um jól.

sunnudagur, 23. nóvember 2008

Laufabrauð

Ég hef verið að leita að uppskrift að glútenlausu laufabrauði í smá tíma. Gafst svo upp á að finna það og fékk vinkonu mína í lið með mér í tilrauna dag. Prófuðum okkur áfram með nokkrar uppskriftir og þar á meðal var í dag þróað glúteinlaust laufabrauð. Ég er mjög ánægð með útkomuna.

Deigið er viðkvæmt, maður þarf að fara mjög varlega með það en samt tókst að gera deig sem er hægt að fletja út, skera í og steikja. Ég mæli samt með að það sé skorið mjög lítið af munstri í það, það er viðkvæmt fyrir og þolir ekki að vera mikið skorið, þá er nær ómögulegt að flytja kökuna. Það þarf líka að pikka kökuna vel og prófa sig áfram með hitann, Feitin verður að vera nógu heit en hún verður auðveldlega of heit. Kökurnar þarf að fletja mjög þunnt annars verða þær of mjúkar í miðjunni.
Þetta er aðeins meira maus en venjulegt laufabrauð en samt kemst þetta fljótt upp á lagið.

Í þessa uppskrift nota ég ákveðna mjölblöndu. DOVES FARM WHITE BREAD FLOUR. Það er ekki oft sem að ég tiltek ákveðið merki þegar ég gef upp hvaða mjöl skal nota. Ég nota þessa tilteknu mjöl blöndu ekkert mjög oft þar sem ég vil frekar fínstilla hlutföllin sjálf. EN þessi mjölblanda inniheldur Xanthan Gum sem að er að mínu mati lykilinn að deigi sem að heldur sér þegar það er flatt út jafn þunnt og þetta þarf að vera. En ef það fengist Xanthan Gum (eða Guar Gum sem gerir sama gagn) hér á landi þá hefði ég gert mína eigin hveitiblöndu að öllum líkndum.

Innihald:

200gr DOVES FARM WHITE BREAD FLOUR (og meira til þegar deigið er hnoðað upp og flatt út)
100gr Bókhveiti
50gr fínt maismjöl
1-2 tsk fínt salt
1 msk Fructose/ávaxtasykur

180ml hrísgrjónamjólk*
90ml kókosmjólk
1 egg (pískað)

Ég er ekki vön sætu laufabrauði en þeir sem vilja það hafa saltið um 1tsk og auka fructose magnið. Ég ólst heldur ekki upp við kúmen í laufabrauði en þeir sem vilja það bæta því að sjálfsögðu við.

*Ekki Rice dream hún er ekki glútenlaus, ég nota oftast Isola.

Palmín til steikingar

Byrjið á því að blanda öllum þurrefnum í skál og píska þau saman með vírpísk. Þá blandast þau vel saman og þetta jafnast á við að sigta þau saman.

Blandið næst blautefnum saman og hrærið saman.
Hrærið svo blautefnum út í þurrefnin og blandið vel saman.

Á þessu stigi er degið nokkuð vel blaut. Stráið meira af Doves Farm mjöl blöndunni á borðið og hnoðið því inn í deigið, bætið við í litlum skömmtum þar til auðvelt er að hnoða deigið í kúlu án þess að hún klístrist mikið við hendurnar.
Skiptið í litlar kúlur.
Takið eina kúlu í einu, stráið smá Doves Farm mjöl blöndu á borðið og á kökukefli og fletjið varlega út, passið að deigið festist ekki við borð né kökukeflið með því að strá meira af mjölblöndunni eftir þörfum.
Þegar deigið er jafn þunnt og þið getið náð því án þess að það sé farið að detta í sundur skerið þá út hring. Ég fann að best væri að hafa kökurnar minna en þær hefðbundnu. Auðveldar alla meðhöndlun. Ég notaði hliðardisk/kökudisk og stóra undirskál til skiptis. Skerið svo í kökuna, pikkið vel og steikið í feitinni.
Leggið svo kökuna á pappír (ég nota dagblöð) svo að hann dragi aðeins í sig umfram feitina. Ég ólst upp við það að kökurnar voru pressaðar með hlemm til að fá þær flatari en sleppið því ef þið eruð vön að gera það, þær eru helst til viðkvæmar í það.

miðvikudagur, 19. nóvember 2008

Súkkulaði muffins

Um daginn fórum við í lautarferð og okkur langaði í súkkulaðimöffins. Ég var ekki með neina uppskrift sem ég var orðin sátt við og gerði því þessa http://krakkamatur.blogspot.com/2008/10/skkulai-kaka.html í muffinsformum. Bökuð jafn lengi og hin og skilar 12 möffins.
Passa bara að hvolfa þeim strax úr möffinsformunum, allaveganna ef þið eruð að nota sílikonform, annars safnast raki á hliðunum sem er ekki það geðslegasta.

föstudagur, 14. nóvember 2008

Mig langar í laufabrauð!

Ég auglýsi eftir laufabrauðsuppskrift. Ef einhver á glútenlausa laufabrauðsuppskrift og er til í að deila henni með mér þá væri ég gífurlega þakklát.

Það fer að styttast í jól og það verður að vera laufabrauð um jól :)

fimmtudagur, 13. nóvember 2008

Þeyttur rjómi!

Það er komin ný vara á markaðinn hér á fróni. Rice whip frá Soyatoo. Hingað til höfum við alfarið sleppt þeyttum rjóma, þeir einu sem ég hef fundið innihalda soya sem ég reyni að forðast. Einnig er reyndar hægt að fá rjóma unninn úr höfrum en við notum ekki hafra og ég veit ekki hvort það sé hægt að þeyta hann.

Rice whip er allaveganna kominn í Yggdrasil, Maður lifandi og Fjarðarkaup.
Við höfum reyndar ekki notað hann mikið, en stráknum fannst rosalegt sport að fá þeyttann rjóma út í kakóið sitt. Ætla að prufa mig áfram með að nota hann, veit ekki hversu mikið alveg á næstunni þar sem ég er að fara prufa mig áfram með jólasmáköku uppskriftir svo að það sé allaveganna hægt að baka fyrir jólin en ég hef nokkrar hugmyndir til að prófa með þennan rjóma.

Mér finnst frábært framtak hjá Yggdrasil (heildsalan Yggdrasill flytur hann inn) að koma loksins með á markaðinn mjólkur og soyalausum sprauturjóma.

Ath það stendur Maltódextrín í fyrstu innihaldslýsingunni sem er á þýsku en í annarri lýsingunni sem er á ensku er tekið fram að það sé maltódextrín unnið úr hrísgrjónum.

föstudagur, 7. nóvember 2008

Góð heilsa gulli betri...

Undanfarna daga hef ég verið pirruð, ákaflega pirruð. Ég hef þrætt heilsuvöruverslanir borgarinnar í leit af hinu og þessu. Allstaðar sér maður að úrvalið hefur stórlega minnkað og kannski er það bara ég en sérstaklega minnkað í glúteinlausu deildunum. Svo þegar maður spyr um eitthvað þá er alltaf sagt að þetta sé vonandi að koma fljótlega. Svona "sér"vara sem er samt nauðsynleg mörgum er víst ekki ofarlega á lista yfir því sem fæst gjaldeyrir fyrir. Ég vorkenni starfsmönnum þessara verslana innilega. Hins vegar er eitt sem að ég er búin að heyra of oft undanfarið, "nei því miður ekki til en við eigum þetta úr spelt". Spelt er ekki glúteinlaust, punktur og basta. Jú jú sumir sem þola illa hveiti virðast þola spelt en það er samt glútein í því. Yfirleitt taka starfsmenn vel í leiðréttingar en þegar þeir reyna að þræta fyrir það og alhæfa að allir þeir sem mega ekki fá glútein megi fá spelt því það sé sko víst glúteinlasut þá verð ég eiginlega bara reið, bara af því að einhver sem það þekkir þolir illa hveiti en þolir spelt.

En í lok neikvæðni og pirrings þá vil ég HRÓSA. Stórt hrós fær heilsu vöruverslunin Góð heilsa Gulli betri á Njálsgötu 1. Fór þangað í dag en ég hef ekki komið þangað inn í um 6 vikur, úrvalið af glúteinlausri sérvöru hefur aukist þar þó nokkuð og ekki spillir fyrir að yfirleitt er þessu verslun ódýrari en aðrar heilsuvöruverslanir. Keypti td Allos Agave þar, 250 ml á 519 en í öðrum var nákvæmlega sama vara á yfir 800kr. Agave er meira að segja aðeins dýrara í Bónus eða um 20 krónum (539 fyrir 250 ml) en reyndar annað merki.
Mæli með að allir kíkji þar við og styðji verslun sem að er allavegana enn sem komið er ekki búin að hækka verð sín neitt verulega.

miðvikudagur, 5. nóvember 2008

Furuhnetumjólk

Furuhnetumjólk er auðveld og þægileg, hún virkar líka dálítið rjómakennd og að okkar mati er hún mjög góð.

Hlutföllin eru:
1 hluti furuhnetur (dl, bolli osfrv)
6 hlutar vatn
Sætt eftir smekk með td agave, hunagi, stvíu eða öðru.

Öllu skellt í blender og leyfa honum bara að ganga í smástund, það þarf ekki að láta þær liggja í bleyti en mér finnst þær blandast aðeins fljótar þannig. Þarf ekkert að sía heldur er hún strax tilbúin til notkunar.