föstudagur, 23. maí 2008

Basic Brauð

Hér kemur uppskrift af Brauði sem er hægt að nota eins og hún er og einnig er hægt að bæta hinu og þessu við hana.
Var að prófa mig áfram í eldhúsinu í dag.

200gr Hrísmjöl (rice flour)
175gr Kartöflumjöl
75gr Tapicoa mjöl
1/2 tsk salt
3 msk Vínsteins lyftiduft
325ml af Hrísgrjóna eða Soya mjólk
1 tsk edik
2 egg
4 msk olía (má sleppa ef ætlunin er að borða það nýbakað en það frystist illa án olíu)

Þurrefnum hrært saman í einni skál og blautefnum í annarri. Síðan er þurefninu hrært út í blautefnin.
Bakist við 200 gráður celsíus, án blásturs í c.a 45 mín

Við þessa uppskrift er hægt að bæta ýmsum fræjum oþh. Bættum við sesamfræjum og sólblómafræjum í dag og það kom vel út. Notuðum c.a hálfan bolla af hvorri tegund.

Einnig ef þið eigið til bókhveiti þá er hægt að fá fram eðlilegri brauð áferð með því nota smávegis svoleiðis með. Minnkið þá hverja mjöltegund um 10-15 grömm og setjið samsvarandi magn af bókhveiti í staðinn. Liturinn og áferðin er þá nær venjulegu brauði. Ég myndi sjálf líklegast ekki kaupa bókhveiti sérstaklega fyrir þetta brauð en þar sem ég á það alltaf til þá nota ég það.

Einfaldur Kjúklingaréttur.

Þessi kjúklingaréttur er mjög einfaldur og fjölhæfur.

2 litlar 165ml dósir Coconut milk
1 dós tómatpúrra

Þessu er hrært saman í skál

Takið kjúklingabita, hvaða bita sem þið viljið og brúnið við miðlungshita á pönnu. Meðan þeir eru á pönnunni kryddið þá með smá Herbamare, svörtum pipar og nokkrum dropum af Tamari sósu.
Bætið síðan við kryddi að eigin smek, td Chili, Engifer, Hvítlauk, Karrí eða öðru. Einnig er hægt að sleppa auka kryddi.
Þegar bitarnir eru búnir að taka smá lit á pönnunni setjið þið þá í eldfast mót. Hellið sósunni á pönnuna og hrærið til að losa um kryddið á pönnunni. Þegar sósan er orðin gegnheit þá er henni hellt yfir bitana. Allt sett inn í ofn í 30 mín á 200 gráður celsíus.

þriðjudagur, 20. maí 2008

Tahini

Ég nota Tahini svo til bara í hummus og tími ekki að kaupa heila krukku sem skemmist á viku.
Tahini er í raun ekkert nema maukuð sesamfræ.
Ég hendi bara sesamfræjum í mortél og mauka þau í því. Set nokkra dropa af olíu saman við til að mykja upp í þessu.

Hummus/Kæfa

ÉG bý reglulega til hummus til að nota á brauð. Ekki fræðilegur að börnin hjá mér myndu borða eitthvað sem héti hummus þannig að á þessu heimili er hummus bara kæfa.
Ég geri mjög milt hummus fyrir þau en tek stundum smá frá og krydda spes fyrir mig.

100gr soðnar kjúklingabaunir (alveg hægt að nota niðursoðnar í dós)
C.a msk af Tahini. (Ég nota tahini bara í hummus eiginlega, tími ekki að kaupa krukku bara fyrir þetta þannig að ég bý til mitt eigið)
Smá sítrónusafi
1 maukað/pressað hvítlauksrif
1 msk olía (ólífu eða kókos er það sem ég nota)
smá salt

Skelli þessu bara í skál og mauka með töfrsprota eða hendi þessu í matvinnsluvélina.

laugardagur, 17. maí 2008

Pönnukökur

Var að leita af pönnuköku uppskrift og rakst á þessar á http://himneskt.is/

100 g bókhveiti
1/2 tsk. vínsteinslyftiduft
Klípa af salti
1 egg
1 msk. ólífuolía
3 dl hrísgrjónamjólk eða sojamjólk, ég notaði hrísgrjónamjólk með vanillu
smá olía til að steikja upp úr

Þurrefnum hrært saman
Vökva bætt við og öllu hrært vel saman.
Steikt á pönnu eins og venjulegar pönnsur.

Þessar kláruðust á met tíma þó ég hafi margfaldað uppskriftina.

sunnudagur, 11. maí 2008

Banana muffins

Bökuðum banana möffins með kaffinu í dag.
Notaði uppskrift sem ég fann á http://cafesigrun.com/uppskriftir/?ufl=14#uppskrift_399
Þær voru bara mjög góðar, í það sætasta fyrir minn smekk þannig að ég prófa líkast til að minnka sykurinn aðeins næst. Ég notaði silikon möffins form við baksturinn og þær heppnuðust fullkomnlega.
Held að ég prófa líka að skipta út bönunum fyrir eplamauk næst.

Viðbót eftir uppskriftarfikt: Minnkaði ávaxtasykurinn niður í 40 gr og bætti við 80gr krukku af sykurlausu eplamauki (notaði eplamauks barnamat). Kom rosalega vel út en maður þarf að baka muffins kökurnar þar til þær eru byrjaðar að brúnast nokkuð ofaná og leyfa þeim að kólna aðeins lengur til að þær séu nægjanlega stífar í miðjunni.

Bananamuffins
Gerir 12 stykki

 • 200 gr hrísgrjónamjöl (enska: rice flour)
 • 60 gr kartöflumjöl
 • 30 gr maísmjöl (enska: corn flour)
 • 2 tsk vínsteinslyftiduft
 • 1/2 tsk heilsusalt (Herbamare)
 • 3 - 4 stórir, vel þroskaðir bananar (mega vera orðnir blettóttir/svartir).
 • 110 gr ávaxtasykur
 • 1 egg, lauslega hrært
 • 1 eggjahvíta, lauslega hrærð
 • 1 msk kókosfeiti eða ólífuolía
 • 90-120 Hrísgrjónamjólk, soyamjólk eða vatn. Gæti þurft meira eða minna.

  Aðferð:
 • Hitið ofninn í 200°C
 • Sigtið saman allt mjöl ásamt vínsteinslyftiduftinu í stóra skál.
 • Í annarri skál skuluð þið stappa banana vel. Hrærið sykrinum, egginu, mjólkinni og olíunni saman við.
 • Hellið blauta hráefninu saman við þurra og blandið þangað til allt er orðið bel blautt (deigið verður nokkuð blautt)
 • Setjið í möffinsform (siliconform eða venjulegt form með heimatilbúnum möffinsformum, sjá athugasemdir fyrir neðan).
 • Bakið í 20-25 mínútur. • Það er frábært að bæta söxuðum valhnetum eða pecanhnetum saman við og eins er rosa gott að bæta söxuðu carob fyrir þá sem vilja (einnig má nota eitthvað gott, dökkt súkkulaði án viðbætts sykurs)
 • Ef maður notar ekki olíu eða smjör í deigið þá getur maður hvorki notað venjuleg pappírsform, né muffinsbökunarplötuna. Það fást sem sé ekki muffinspappírsform sem maður getur sett í án þess að þurfa að nota smjör eða olíu í deigið. Ég er búin að leita út um allt. Ég hef í staðinn sniðið hringi (strika með penna utan um undirskál) úr bökunarpappír og sett í hvert muffinspláss og svo deigið þar ofan í. Það er hægt að nota möffinspappírinn svo um 6 sinnum. Einnig má nota siliconform og þá þarf ekki bökunarpappír.
Uppskriftin er birt með leyfi CafeSigrun


laugardagur, 10. maí 2008

Fiskiputtar

Fiskiputtar eru vinsælir hér. Ekki þessir bresku, einhver óræður fiskur í braupraspi heldur heimagerðir sem eru mjög einfaldir í gerð.

Fiskur, bein og roðhreinsuð flök.
Kókos mjöl (ekki kókos hveiti heldur þetta venjulega kókosmjöl sem fer ofan á skúffukökur)
Bókhveiti
Egg
Hrísgrjóna eða soja mjólk.

Fiskurinn er skorinn í strimla/lengjur sem eru álíka breiðir og fullorðinsputti.
Blandið kókos og bókhveiti saman í skál eða á disk, 2 hlutar kókos á móti einum af bókhveiti.
Hrærið saman í annari skál eggi og uþb matskeið af mjólkinni, ég nota hrísgrjónamjólk með vanillu.

Veltið fiski puttunum fyrst upp úr eggjablöndunni og því næst upp úr kókos blöndunni, raðið á disk jafnóðum. Reynið að hjúpa fiskinn vel.

Því næst er þetta steikt á pönnu við miðlungs hita, ég nota c.a msk af olíu fyrir hvern skammt. Steikið á öllum hliðum þar til hjúpurinn er gullinbrún. Mér finnst þægilegt að setja hvern skammt jafnóðum á diskinn sem ég ætla að bera þetta fram á og inn í ofn sem er stilltur á 50 gráður celsíus til að halda puttunum heitum.

Stráknum finnst einnig mjög gott þegar ég blanda afgangnum af eggjunum og kókosblöndunni saman og geri lítil buff úr þeim. C.a msk fer í hvert buff.

Krökkum finnst auðvitað gaman að dýfa mat í sósur og þessir puttar eru tilvaldir til þess. Í kvöld notuðum við lítinn skammt af grunn tómatsósunni og krydduðum með örlitlum svörtum pipar, smá hvítlauk, Basil og Oregano. Hægt er að nota hvaða sósu sem ykkur dettur í hug.

Verði ykkur að góðu. :)

föstudagur, 9. maí 2008

Lasagne

500 gr hakk
c.a 350 gr Grunn tómatsósa
Krydd eftir smekk ég nota ferskan hvítlauk, Oregano, Basil, Majoran, svartan pipar og pínulítið múskat.
Glútenlauasar lasagne plötur
Soya ost (ath að soya ostur getur innihaldið mjólkurefni, lesa þarf vel á pakkann eða sleppa honum) þeir sem þola geitaost geta notað hann.

Hakkið er steikt og kryddað eftir smekk, tómatsósunni er bætt út í og látið malla smá stund.
Hluti af kjötblöndunni er hellt í eldfast mót og lasagne plötur þar ofan á, meiri kjötsósa og aftur lasagne plötur þar til kjötsósan er búin. Stráið osti yfir og bakið við 160 gráður celsíus í c.a 45 mín.

Ef gera á eggjalaust þá þarf að passa að lasagne plöturnar séu glúten og eggjalausar.

Grunn tómatsósa

1/4 laukur, fínsaxaður
4 msk olifuolía
1-1,5kg tómatar, afhýddir og grófsaxaðir
Ferskt Basil

Laukurinn er steiktur við lágan hita í olíunni þar til hann mýkist vel.
Tómatarnir settir út í og leyft að krauma við vægan hita í 30-45 mín. Ef ennþá of kekkjótt þá er fínt að fara með kartöflustappara og stappa hana aðeins. Ferskt basil rifið útí.

Þessi sósa frystist vel og er hægt að nota hana í ýmislegt. Út á fisk, yfir glútenlaust pasta eða í lasagne og í raun bara hvað sem manni dettur í hug.

Til að afhýða tómatana er ágætt að setja þá í c.a 30 sek í sjóðandi vatn og þá fer flusið auðveldlega af.

"Súkkulaði" hnetusmjör.

Plat súkkulaði hnetusmjör.

2 msk hnetusmjör (Ég nota hnetusmjörið frá Sollu á grænum kosti. Það er alveg sykurlaust.)
1 tsk agave síróp
1/2 tsk carob duft

Öllu hrært og stappað saman með gafli.


Strákurinn borðar ekki hnetusmjör en honum fannst þetta fínt. Litla frænka mín kláraði sitt glútenlausa hrökkbrauð með "súkkulaði" áleggi og bað um meira.
Fínt í svona laugardags kaffi tíma.

Ástæðan!

Ástæðan fyrir þessu bloggi er sú að mér finnst vanta miðil sem helgar sig að því mataræði sem hentar þeim sem ekki geta borðað glúten, mjólkurvörur og reyrsykur. Til er fullt af frábærum miðlum með hollum mat, glútenlausum mat, mjólkurlausum mat osfrv en ég hef enn ekki rekist á miðil sem helgar sig að uppskriftum sem að forðast allt þetta.
Ástæðan fyrir því að mér finnst vanta þess háttar miðil er að á mínu heimili verður mataræðið glúten, mjólkurvöru og reyrsykurlaust.
Ástæðan fyrir því er tvíþætt. Sú fyrri er að stjúpsonur minn er með Psoriasis og mælt var með þessu mataræði til að halda því í skefjum. Sú síðari er að ég sjálf er með vefjagigt og exem og mælt hefur verið með þessu mataræði fyrir mig.
Ástæðan fyrir nafninu "krakkamatur" er sú að uppskriftirnar sem birtast hér verða uppskriftir sem ég er búin að prófa sjálf og sem börnunum á mínu heimili finnst góðar. Þar af leiðandi er þetta aðallega glúten, mjólkur og reyrsykurlaus krakkamatur.

Þó að allar uppskriftir sem birtast hér eigi eftir að henta glúten, mjólkurvöru og reyrsykurlausu mataræði þá eiga líkast til eftir að detta inn uppskriftir sem henta fólki og börnum með annarskonar matarofnæmi.
Ég kem til með að merkja uppskriftir sem eru hnetulausar, eegjalausar og sojalausar með merkingum í uppskriftasafninu.
Líklega á ég einnig eftir að setja inn eina og eina uppskrift sem mér finnst alveg meiriháttar þó að börnin hafi ekki verið sammála mér. Ég merki þær fullorðins í titli.
Þegar ég segi að uppskriftirnar séu sykurlausar þá á ég við að ekki er hvítur sykur í þeim. Ég kem til með að nota agave síróp, hunang og þess háttar.

Þessi miðill á líklega eftir að fara hægt af stað, ég er sjálf að standa í mikilli tilraunamennsku, uppskriftaleit og aðlögun. Ég set hluti inn nokkurnveginn jafnóðum en þar sem þetta er bara hobbý í hjáverkum þá getur liðið dálítill tími á milli færslna.