sunnudagur, 12. desember 2010

Einföldu súkkulaðibita smákökurnar.

Þessar eru einfaldar, frekar ódýrar (allavegana ef hrísmjölið og tapiocamjölið er keypt í asísku búðunum) og fljótlegar. Glútenlaus bakstur er oft tímafrekari en venjulegur bakstur en þessar eru alveg jafn einfaldar og venjulegar súkkulaðibita smákökur, ef ekki einfaldari. Þessi uppskrift skilar tveimur ofnplötum og tilvalið að baka stærri skammt til að geta gripið í seinna meir frekar en að kaupa rándýrar tilbúnar smákökur eða kex. Ég geymi umfram kökurnar í frysti, er bara með lítið box uppi við í einu.
1 og 1/2 Bolli Hrís mjöl
1 Bolli Tapioca mjöl
1/2 tsk salt
1/2 tsk Vínsteinslyftiduft
1 Bolli matarolía (bragðmild)
1/2 Bolli agave
1/2– 1 Bolli saxað súkkulaði

Allt nema súkkulaðið er set í skál og hrært vel i, súkkulaðinu er bætt við og blandað vel saman við.
Motið kúlur (c.a msk stærð) og fletjið aðeins út með gafli. Bakið við 180 C í 10 mínútur eða þar til gullnar. Leyfið að kólna alveg áður en þær eru teknar af ofnplötunni.

Ég mæli með að þurrefnin séu fyrst mæld og að olían sé svo mæld á undan agave sýrópinu. Þá rennur það mun betur úr mæli ílátinu.

sunnudagur, 14. febrúar 2010

Fjölhæfur Karríréttur

Þessi réttur er frekar mildur á bragðið, ef ég er að gera hann eingöngu fyrir fullorðna þá myndi ég setja c.a helminginn af öllum hráefnum í viðbót en nota jafn mikla kókosmjólk.

3 msk Olía
1 laukur, fínsaxaður
2-3 hvítlauksgeirar, maukaðir
1 msk salt
1 msk madras Karríduft (Ekki gula karríduftið sem er algengast í flestum matvöruverslunum)
1 tsk túrmerik
1 tsk mulin Karri lauf
½ tsk engifer
½ tsk mulinn svartur pipar
½ tsk chilliduft
1 tsk tómatpúrra
1 dós (400ml) Kókosmjólk


Olían er hituð í potti við miðlungshita, lauknum bætt við og steiktur þar til hann er orðinn half glær, þá er hvítlauknum bætt við og síðan öllu kryddinu. Þessu er leyft að malla í c.a 2 mínútur en hrærið í allan tímann á meðan. Þá er tómatpúrrunni bætt við og hrært vel saman við og að lokum kókosmjolkinni. Þessu er leyft að malla við lágan hita í 20-30 minútur.

Hægt er að gera margar mismunandi útfærslur, fisk, kjúkling eða jafnvel vegan með allskonar grænmeti og baunum.

Fiskur: Setjið fiskinn hráan út í sósuna og leyfið honum að matreiðast í sósunni. C.a 20 mínútur eða svo.

Kjúklingur: Notið kjúkling sem búið er að elda (td afganga) og setjið út í sósuna seinustu 10 mínútur eða svo.

Vegan: Það Grænmeti sem þið viljið nota (ég nota yfirleitt kúrbít og papriku) er létt steikt á pönnu og sett út í ásamt baunum seinustu 10 mínúturnar eða svo eða brytjið afganga af soðnum kartöflum og setjið út í ásamt baunum. Yfirleitt þá nota ég kjúklingabaunir eða smjörbaunir eða blanda mismunandi baunategundum saman.