fimmtudagur, 31. júlí 2008

Hlaup (Jello)

Krökkum finnst Jello skemmtilegt. Ókosturinn við Jello er að það er sykur og vatn, bragðefni og gelatin.
Nýja uppáhaldið hér er Hlaup gert úr ávaxtasafa og Agar dufti. Mjög einfalt og lítil vinna.
Leiðbeinigarnar á Agar duftinu sem ég nota segja að það þurfi 1/2 tsk af Agar dufti á móti 250ml af vökva, mér finnst halupið vera í það stífasta þannig og nota því 1/2 tsk af Agarduftinu á móti 300ml af vökva.
Eina sem þarf að gera er að blanda saman í pott ávaxtasafa að eigin vali og agardufti, koma upp suðu og leyfa að sjóða í 2 mínútur. Hellt í skál eða form og kælt í ísskáp í c.a 4 tíma.
Ef safinn er ekki nógu sætur er hægt að sæta hann með Agave Sírópi.

Skemmtileg útfærsla er að gera einn skammt af hlaupi og setja í glös, c.a 1/3 af glasi. Þegar hlaupið er orðið nokkuð stíft eftir c.a klukkustund í kæli eru sett ýmis ber ofan á fyrsta lagið og hellt nýjum skammti af halupi yfir. Hægt að nota mismunandi litaðaðan ávaxta safa. Kælt í c.a 4 tíma.

laugardagur, 26. júlí 2008

Útilegumatur

Við vorum á ættarmóti um daginn, sofið í tjöldum og allt það. Áður en við fórum var ég hálf áhyggjufull um að erfitt yrði að finna hentugan mat í útilegu sem að börnin myndu borða. Ég vildi heldur ekki vera að stressa mig of mikið yfir einhverri matargerð á ættarmótinu sjálfu. En það hafðist og ferðin var mjög ánægjuleg í alla staði.


Í morgunmat vorum við með Cornflakes, glútenlaust meusli http://krakkamatur.blogspot.com/2008/06/granola-ii-muesli-hnetulaust.html

og poppað Hirsi með hunangi (fæst í maður lifandi Hirse Honnig Poopies frá Allos) og Isola hrísgrjónamjólkin út á. Síðan voru í boði ávextir með.


Í hádegismat fyrri daginn var í boði Pizza bollur http://krakkamatur.blogspot.com/2008/07/pizzu-bollur.html

Ágætt að taka þær úr frysti daginn áður og leyfa að þiðna í kæliboxinu. Einnig voru í boði harðsoðin egg (sauð þau áður en við lögðum af stað) Skólagúrkur og kirsuberjatómatar og desert grjónagrautur http://krakkamatur.blogspot.com/2008/06/desert-grjnagrautur-hnetulaust.html sem var gerður áður en við lögðum af stað. Bjó til stóran skammt og sett í box með loftþéttu loki.


Í kvöldmat var svo bara grillað kjöt, grænmeti með og ég keypti tómatsósuna frá Himnesk hollusta fyrir börnin. Hún er að mínu mati nákvæmlega eins og venjuleg Heinz eða Hunts tómatsósa en úr mun hollari hráefnum.

Móðursystir mín gerði eitt mjög sniðugt, áður en hún kom skar hún niður kjúklingabita og þræddi upp á járn tein. Þessu var svo pakkað í plast, kælikubbur sett sitthvorum megin við og aftur pakkað í plast. Ég hef alltaf verið smeyk við að grilla kjúkling því ég er alltaf viss um að hann verði hrár í miðjunni hjá mér en vegna járnteinsins fer líka hiti inn í bitana. Mér finnst líka óþægilegt að ferðast með hráan kjúkling en þessu var svo kyrfilega pakkað að engin hætta var á að blóðvökvi læki í annan mat og hélst vel kalt.
Í hádegismat hinn daginn var í boði hrökkbrauð (Ég nota Crispread frá Amisa, eina sem ég hef fundið sem er líka sykurlaust) og mais popp kex með Hummus (gerði hummus áður en við lögðum af stað). Skólagúrkur og kirsuberjatómatar. Harðsoðin egg og Desert grjónagrautur.


Í kvöldmat var sameiginleg máltíð, heil grilluð læri (frekar mörg enda um 170 manns í mat) einnig var salat, grillaðar kartöflur, grillbrauð og sósa. Hvorki grillbrauðin né sósan var í lagi fyrir okkur. Ég bjó til grillbrauð fyrir okkur http://krakkamatur.blogspot.com/2008/07/grillbrau-ea-snbrau.html en nennti ekki að stand í sósugerð og því var bara tómatsósan frá himnesk hollusta í boði með. Í staðinn fyrir gos var í boði sódavatn og eftir matinn grilluðu börnin sér glútenlaus snúbrauð úr restinni af deiginu frá grillbrauðunum meðan að hin börnin notuðu afgang af deiginu sem grillbrauðin höfðu verið gerð úr.


Á milli mála báða dagana var í boði Larabar, meusli stangir, Ávextir bæði ferskir og þurrkaðir, harðfiskur og snakk. Vatn og Ávaxtasafar. Einnig bakaði ég muffins http://krakkamatur.blogspot.com/2008/05/bkuum-banana-mffins-me-kaffinu-dag.html

sem er hægt að taka úr frysti þegar lagt er af stað og leyfa því að þiðna í kæliboxinu.


Ég vissi það að flest börnin þarna myndu grilla sykurpúða og tók því með Rice and Rice búðing handa börnunum til þess að fá í staðinn, þau voru búin að fá sportið við að grilla sjálf en vildu auðvitað eitthvað sætt þegar hin börnin fengu eitthvað sætt. Rice and Rice búðingur telst sem svindl hjá okkur þar sem að hann inniheldur maís sýróp en maður verður að leyfa eitthvað smá á ættarmóti ;)


Þægilegast er að vera með ávexti og grænmeti sem þarf lítið að skera. Epli, mandarínur, banana, vínber, jarðarber og kiwi td og litlar snakk eða skólagúrkur og kirsuberja eða konfekt tómata.

fimmtudagur, 24. júlí 2008

Grillbrauð eða Snúbrauð

Við fórum á ættarmót um seinustu helgi og vitandi það að það yrði boðið upp á grill brauð með matnum og snúbrauð eftir matinn fyrir börnin að dunda sér við, þá varð ég að finna glúteinlausan staðagengil.
Fyrir þessa uppskrift þá hrærði ég öllum þurrefnunum saman í skál með loki áður en við lögðum af stað. Það tók innan við 2 mínútur á staðnum að finna til restina af hráefnunum og hræra þessu saman. Ég byggði mína útfærslu á þessari uppskrift: http://www.vefuppskriftir.com/uppskrift/snubraud.html

1 bréf ger
100gr Hrísmjöl
100 gröm maísmjöl
50gr kartöflumjöl
50gr Bókhveiti
25gr Tapioca mjöl
100 gröm maísmjöl
1 og 3/4 dl hrísgrjónamjólk
1 tsk ávaxtasykur
¼ teskeið salt
30 gröm brætt mjólkulaust smjörlíki eða olía
1 egg
1 teskeið trefjar (Psyllium husk powder)

Fyrir Grillbrauð þarf að auki álpappír og auka olíu. Ég strauk smá olíu yfir álpappírs örk og bjó svo til nokkrar litlar kökur. Svo lagði ég aðra örk af álpappír yfir sem var einnig smurð með smá olíu. Þá varð auðvelt að snúa brauðunum við án þess að þau dyttu á milli rimlanna á grill grindinni. Grillað þar til brauðin er farin að brúnast vel á báðum hliðum. Passa þarf að hafa þau frekar þunn svo þau bakist í gegn án þess að brenna að utan.

Fyrir snúbrauðið þarf bara að finna hentugt prik. Best er að setja smá olíu á hendurnar svo deigið festist ekki við þær. Ég rúllaði svo út smá pylsu sem var vafin um prikið. Sama á við hér, passa að hafa deigið nógu þunnt til þess að það bakist í gegn. Svo dunda börnin sér bara við að grilla brauðin.

mánudagur, 7. júlí 2008

Pizzu bollur

Bjó til pizza bollur í hádeginu í dag. Notaðist við brauð uppskriftina sem ég nota yfirleitt en gerði bara hálfa. Það skilaði sé í 12 "bollum" eða í raun muffins því ég bakaði þetta í sílikon muffins formum.

Brauð hlutinn:
150gr Hrísmjöl (rice flour)
50gr Kartöflumjöl
25gr Tapicoa mjöl
25gr Bókhveiti eða Gram (kjúklingabauna) hveiti
25 gr sesamfræ
25 gr sólblómafræ
1/4 tsk salt
1,5 msk Vínsteins lyftiduft
185ml af Hrísgrjónamjólk (það er í lagi að nota soyamjólk ef þið þolið soya)
40 gr eplamauk
100gr rifinn kúrbítur (c.a hálfur kúrbítur af meðalstærð)
1/2 tsk edik
1 egg
2 msk olía (má sleppa ef ætlunin er að borða nýbakað en þær frystist illa án olíu)

Pizzasósan.
400gr Grunn tómatsósa http://krakkamatur.blogspot.com/2008/05/grunn-tmatssa-hnetu-og-fisk-laust.html
EÐA
1 400gr dós niðursoðnir tómatar, maukaðir í matvinnslu vél eða með töfrasprota
120gr Tómatpúrra
1 hvítlauksrif, maukað
Svartur pipar
Oregano
Basil
Steinselja
Múskat

Byrjið á pizzusósunni, setjið tómatsósuna í pott og komið upp léttri suðu, leyfið að malla í 3-4 mínútur. Blandið þá tómatpúrrunni við og kryddið hana til eftir smekk. Setjið hana til hliðar og leyfið henni að kólna aðeins.

Stillið ofninn á 200 gráður celsíus

Byrjið á brauðinu.
Þurrefnum hrært saman í einni skál og blautefnum í annarri. Síðan er þurefninu hrært út í blautefnin.

Setjið botnfylli af deiginu í hvert möffins form. Setjið svo matskeið af pizzusósunni ofan á það. Hyljið svo með meira brauðdegi.

Bakist við 200 gráður í c.a 30 mínútur.

sunnudagur, 6. júlí 2008

Muesli stykki

Ég hef átt í erfiðleikum með að finna mueslistykki sem við getum notast við. Ég hef keypt Wallaby stykkin handa börnunum og finnst þeim þau góð. Þau eru bæði með jógúrt húðuð sem eru á bannlista og önnur sem eru ekki húðuð. Ég sjálf má ekki fá þau því sojaóþol hefur verið að koma í ljós og mér finnst alltaf skemmtilegra að við getum öll borðað sama matinn. Því hef ég búið til mín eigin.

Hráefni:
2 bollar kókosmjöl
1 bolli Hirsi flögur
1/2 bolli Quinoa flögur
1 og 1/2 bolli rúsínur
2 bollar sólblómafræ
1/3 bolli sesam fræ
3/4 bollar jarðhnetur (Ég nota saltlausar, set þær í poka og brýt frekar smátt með kökukefli)
1/2 bolli þurrkaðir ávextir
1/2 tsk salt
1 bolli hunang
1 tsk vanilla
1/2 bolli hnetusmjör


Aðferð:

Hrærið saman hunangi, vanillu og hnetusmjöri í skál. Blandið restinni af hráefnunum saman við. Setjið bökunarpappír í stórt eldfast mót, berið olíu á hendurnar á ykkur og setjið blönduna í mótið. Ýtið blöndunni þétt niður. Bakið við 135 gráður Celsíus í 50-60 eða þar til gullið brúnt. Fjarlægið þá úr ofninum og þjappið aftur niður. Leyfið þessu að kólna aðeins og skerið svo í bita, setjið í litla plastpoka og þá eruð þið með litla snarl poka til að grípa með ykkur ef þið eruð að skreppa eitthvað. Geymið annars í loftþéttu íláti.


laugardagur, 5. júlí 2008

Guacamole (Fullorðins?)

Mér finnst guacamole ómissandi með Taco´s, börnin eru ekki sammála mér en ég vona að þau læri að meta guacamole með aldrinum.
Svona geri ég það.
Ég nota:

1/2 lítinn rauðlauk, fínsaxaðan
4 tómata, fínsaxaða. Ég skrapa megnið af fræjunum innan úr.
1 grænt chilli, fræhreinsað og fínsaxað
1/2 lítil græn papríka, fínsöxuð
1 msk fínsaxaður ferskur Kóríander (sleppi þessu stundum)
2 stór þroskuð avakadó
1 msk lime safi (nota sítrónu ef ég fæ ekki lime)
1 msk Ólifu olía
salt og pipar eftir smekk

Ég sker Avakadóin í tvennt og skrapa innan úr þeim með skeið. Stappa innihaldið með skeið og bæti við það lime safa og olíu. Hræri síðan við öllu hinu.

Ég kem oft með ferskt guacamole með mér ef ég þarf að taka eitthvað með í veislur. Þá blanda ég öllu saman nema avakadóinu og stappa avakadóið og hræri öllu saman þegar ég kem á staðinn. Borið fram með Nacho flögum.

Ég nota líka oft Guacamole sem álegg ofan á svo til hvað sem er.

Taco´s

Vorum með Taco í matinn í gær, svona það næsta sem við komumst ruslfæði.
Taco mixin sem fást í pökkum eru yfirleitt með einhverju í sem við bjóðum ekki upp á. Þess vegna gerum við Taco frá grunni.
Í það notum við:

500gr nautahakk
250 gr Nýrnabaunir (yfirleitt þá um 400gr dós, restin er vökvinn)
400gr Grunn tómatsósa, eða samsvarandi magn niðusrsoðnir tómatar.
80 gr tómatpúrra
2 dl vatn
1 súpukrafts teningur
1 laukur, fínsaxaður
1-3 hvítlauksgeirar kramdir
Kryddað til með pipar, chilli, oregano, steinselju, basil og múskat.

Brúnið laukinn og hvítlaukinn á pönnu, steikið svo hakkið með.
Færið kjötblönduna yfir í pott og bætið við tómatsósunni (niðursoðnum tómötum), tómatmaukinu, vatninu, súputeningnum og nýrnabaununum.
Kryddið eftir smekk en kryddið minna en þið teljið þurfa, bragðið á eftir að magnast.
Leyfið þessu að malla við lágan hita í hálftíma eða jafnvel lengur, bætið við smá vatni ef þetta fer að verða of þurrt. Áður en það er borið fram smakkið þá á því og bætið við kryddi ef ykkur finnst vanta.

Saxið svo niður ferskt grænmeti og hitið Tacoskeljarnar í ofni eftir leiðbeiningum á pakkanum.
Krökkunum finnst gaman að setja sjálf í skeljarnar.
Fínt að hafa Taco sósu, Salsa og guacamole með einnig.

Þær taco skeljar sem ég hef keypt innihalda ekkert glútein, eru úr mais mjöli sem eru náttúrulega glúteinlaust. Lesið samt utan á pakkann til öryggis, ég hef séð taco skeljar líka sem innihalda hveiti.