föstudagur, 27. júní 2008

Granola II (muesli)

Önnur útgáfa af Granóla, ég borða muesli á hverjum morgni, stelpunni finnst það fínt stundum en strákling finnst það ekkert spes.

1 bolli Quinoa flögur
1 bolli Hirsi (millet) flögur
1 bolli kókosmjöl
1/2 bolli Sólblómafræ
½ bolli jarðhnetur, saltlausar og grófmuldar.(Sleppið ef þið viljið hnetulaust)
¼ bolli hörfræ
¼ bolli sesamfræ
1/4 bolli Agave Síróp
2 msk Hunang
Rúsínur og aðrir þurrkaðir ávextir eftir smekk.

Blandið saman i skál öllum hráefnunum nema þurrkuðu ávöxtunum. Blandið saman með fingurgómunum þannig að Agave sírópið og hunangið dreifist jafnt en reynið að kremja ekki flögurnar.
Dreifið úr blöndunni á 2 ofnskúffur með bökunarpappír á. Setjið í 100 gráðu heitan ofn og passið að hafa blásturinn EKKI á. Bakist í 20 mínútur en hrærið í blöndunni og dreifið aftur úr henni allavegann tvisvar sinnum. Lækkið hitann í 50 gráður og bakið áfram þar til gullið og engin raki er eftir í blöndunni. Tekur c.a 20 mínútur og hrærið annarslagið í blöndunni á meðan.
Þegar þið takið blönduna úr ofninum bætið þá þurrkuðu ávöxtunum við, leyfið blöndunni að kólna og geymið í loftþéttu íláti.

fimmtudagur, 19. júní 2008

Hvar fæst hráefnið!

Hráefni í Glúten, mjólkur og sykurlausan mat fæst víðsvegar.
Ég ætla koma með smá lista um þá staði sem ég hef fundið og notað.

#Góð heilsa gulli betri er á Njálsgötu 1 og er með eitthvað af glútenlausum vörum og einhverjar mjólkurstaðgengilsvörur.

#Yggdrasill á skólavörðustíg eru með ágætt úrval af glútenlausum mat, einnig mjólkurvöru staðgengla og ýmislegt annað td agave síróp, carob og margt fleira.

#Heilsuhúsið er einnig með eitthvað af vörum. Svipað úrval og Yggdrasill þannig séð en ekki allt sömu vörurnar. Ég mæli með að þð kynnið ykkur íbúakort heilsuhússins.
http://www.heilsuhusid.is/klubburinn/

#Maður lifandi er með þokkalegt úrval.

#Sumar hagkaups verslanir eru með ýmislegt, ég hef bara farið í lífsins lind í hagkaup í kringlunni.

#Asískar verslanir eru með ýmislegt. Ég hef notast við Fillepeysku búðina á horninu á hverfisgötu og barónstíg og fæ td ódýrasta hrísgrjónahveitið sem ég hef fundið þar. Einnig fæ ég þar Tapioca hveiti, Tamari sósu, kókosmjólk, ýmsar hnetur og fræ og margt fleira og það mun ódýrara en í heilsuvöru verslununum. Einnig hef ég verslað ýmislegt í Mai Thai á laugaveginum beint á móti Hlemm.

#Rangá í skipasundi er með þokkalegt úrval af glútenlausum vörum en því miður innihalda flest allar sykur. Flestar vörurnar hjá þeim voru frá semper.

#Bónus er með einhverjar mjólkurstaðgengilsvörur en mismunandi úrval eftir verslunum. Það sem ég hef séð hjá þeim er Provamel Soyamjólk, Rice and Rice hrísmjólkin og Rice Dream hrísmjólkin. Athugið að Rice Dream er EKKI glútenlaus. Einnig er Bónus með Sollu vörurnar og einnig fæst Larabar þar sem er laust við Glúten, mjólk og sykur. Bónus er með nánast engar glútenlausar sérvörur.

#Krónan er með mjólkurstaðgengilsvörur, glútenlaust morgunkorn en annars svipaðar vörur og heilsuvöru hillur í Bónus. Mun meira er samt í Krónunni af lífrænum og Eco vörum. Ég sjálf hef bara farið í Krónuna á Granda.

#Fjarðarkaup er með bestu heilsuvörudeild í venjulegri verslun sem ég hef séð á Íslandi, einnig eru þau með gott úrval af glútenlausri sérvöru.

#Græna Torgið í blómaval er með eitthvað af mjólkurstaðgengilsvörum, takmarkað af glútenlausum en ágætt úrval af súputeningum sem innihalda hvorki sykur né MSG. Eru með mjög gott úrval af lífrænni matvöru og lífrænum ávöxtum og grænmeti.

Óla Brauð (kúrbítsbrauð)

Alltaf er maður að reyna að auka næringargildi matarins hjá börnum, helst án þess að þau viti að þau séu að borða eitthvað öðruvísi en venjulega. Maður rífur niður allskonar grænmeti til að fela það í td bolognese sósu.
Reyndar eru börnin hér mjög dugleg að borða flest grænmeti og einnig ávexti en ég reyni að fela grænmetið sem þau eru ekki jafn hrifin af.
Kúrbítur inniheldur td Fólín, A-Vítamín, Mangan og Kalíum. Einnig er hann talinn mjög góður fyrir meltinguna.

Þess vegna ákvað ég að reyna að troða því í brauðuppskrift. Hún byggist á sama grunni og Basic Brauð uppskriftin en er með ýmsum viðbótum sem auka næringargildi hennar.
Endilega prófið ykkur áfram með olíublöndur, hér notaði ég eina msk af hörfræolíu, eina af kókosolíu og tvær msk af ólifuolíu.
Þessi uppskrift gerir tvö brauð ef þið eruð með venjuleg brauðform, eitt ef þið notið extra langt brauðform. Ég afhýði kúrbítinn því það er ekki fræðilegur að ég geti sannfært börnin um að það eigi að vera grænir bitar í brauðinu ;)

300gr Hrísmjöl (rice flour)
100gr Kartöflumjöl
50gr Tapicoa mjöl
50gr Bókhveiti eða Gram (kjúklingabauna) hveiti
50 gr sesamfræ
50 gr sólblómafræ
1/2 tsk salt
3 msk Vínsteins lyftiduft
290ml af Hrísgrjónamjólk* (það er í lagi að nota soyamjólk ef þið þolið soya)
80 gr eplamauk
200gr rifinn kúrbítur (c.a einn kúrbítur af meðalstærð)
1 tsk edik
2 egg
4 msk olía (má sleppa ef ætlunin er að borða það nýbakað en það frystist illa án olíu)

*Rice Dream er EKKI glútenlaus, ég nota oftast Isola.

Þurrefnum hrært saman í einni skál og blautefnum í annarri. Síðan er þurefninu hrært út í blautefnin.
Bakist við 200 gráður celsíus, án blásturs í c.a 50 mín

Leyfið brauðinu að kólna alveg áður en þið reynið að skera það.

mánudagur, 16. júní 2008

Bakaður fiskur

Mamma bjó oft til bakaðan fisk þegar ég var krakki. Bakaði fiskurinn var í miklu uppáhaldi en ég þoli hann illa í dag eins og mamma gerði hann. Hún gerði hann úr saltfiskafgöngum en ég þoli illa saltmagnið. Ég elda heldur aldrei saltfisk þannig að ég á aldrei afganga af honum.
Ég elda hinsvegar mjög oft fisk. Þegar ég elda fiskrétt þá sýð ég oft smá auka fisk. Þar sem ég er oftast með hrísgrjón með fisk þá sýð ég auka hrísgrjón með matnum. Þá er ég komin með helstu hráefnin í fljótlegan afganga rétt sem krökkunum finnst alveg frábær.
Það er engin bein uppskrift með mælieiningum sem ég nota en ég geri hann svona.

Fisk afgangar og hrísgrjóna afgangar settir í skál, örlítið meira af hrísgrjónunum.
Eggjum bætt út í og hrært við með handþeytara (eða hrærivél) þar til þetta er orðið að nokkurskonar soppu.
Dijon sinnep bætt við eftir smekk, ég nota c.a 2 msk í lítinn 3-4 manna skammt .
Sett í ofnfast mót.

Kókosmjöl sett í aðra skál og smá olíu bætt við þar til kókosmjölið er rétt byrjað að klístrast saman. Kókos blöndunni er stráð yfir fiskblönduna.

Bakist við 180 gráður í 20-30 mínútur. Kókosinn verður fallega gullinn.

laugardagur, 7. júní 2008

Desert grjónagrautur!

Það er auðveldlega hægt að gera mjólkurlausan grjónagraut
Fann þessa uppskrift hér http://crunchyparent.com/?p=105
Þetta er eiginlega meiri desert grautur að mínu mati en hinn klassíski íslenski.
Þetta var eftirmatur í kvöld og börnin kláruðu allt, báðu um meira og liggur við sleiktu innan úr skálunum þegar allt var búið, tja þær voru allaveganna vel skrapaðar að innan.
Ég tvöfaldaði uppskriftina því mér fannst heil vanillustöng of mikið fyrir einfalda uppskrift.

3 bollar soðin hrísgrjón
3 bollar hrísgrjónamjólk*
1/2 tsk salt
2 msk kókoshnetu olía
6 msk hunang
2 tsk kanill
2 egg
2 tsk gluten laust hreint vanillu extract EÐA 1 vanillustöng. Ég fann ekki nógu gott vanillu extraxt þannig að ég skar vanillustöng í tvennt, skrapaði innan úr henni ofan í pottinn og henti svo stönginni líka með í pottinn.

*Ekki öll hrísgrjónamjólk er glútenlaus. Rice Dream er það td ekki. Ég nota Isola.

1. Blandið öllu saman í pott NEMA egginu. Komið upp suðu og látið rétt svo sjóða í 15-20 mínútur (Ef þið notið extract sleppið því þá líka)
2. Í skál þeytið þá eggin með písk, bætið svo blöndunni úr pottinum í smá skömmtum út í eggin og þeytið vel á milli með písk. Mikilvægt að gera þetta á þennan hátt annars fáið þið eggjahræru í grautinn. Setjið svo aftur í pottinn, komið upp suðu og rétt viðhaldið henni í c.a 2 mínútur.
3. Ef þið notið vanillu extract bætið henni þá við hér, ef þið notið vanillu stöng takið hana þá úr, hún hefur gert sitt gagn. Setjið í skál, plastfilmu yfir og kælið.

Bæði gott heitt og kalt.



fimmtudagur, 5. júní 2008

Banana muffins breyting!

Sjá "viðbót eftir uppsriftarfikt" í þessari færslu http://krakkamatur.blogspot.com/2008/05/bkuum-banana-mffins-me-kaffinu-dag.html.
Tókst að minnka ávaxtasykurinn um 70 gr eða úr c.a 9 gr per muffins í 3,3 gr per muffins.

Innihaldslýsingar geta verið villandi!

Var að versla í gær og gríp upp kokteilsósu brúsa frá E.Finnsson. Les yfir innihaldslýsinguna og þar er talið upp Vatn, jurtaolía, eggjarauður, tómatþykkni, sinnep, edik, salt, krydd, bindiefni (E 1412, 412, 410, 401) og rotvarnarefni E 202).
Kokteilsósa er alls ekki eitthvað sem er oft í boði hér á bæ en þegar grillveislu vertíð er að hefjast þá er ágætt að hafa einhverja sósu til að grípa í ef maður gleymir að búa til sína eigin.
Horfi á "jurtaolía" og fer að spá hvort það gæti verið soyaolía sem er komin á bannlista fyrir mig, reyndar bara mig þar sem soyaóþol hefur verið að koma í ljós.
Spái svo í "tómatþykkni" og fer að hugsa út í hvort það gæti verið maltodextrín í því eða corn syrup.
Hringi svo í E.finnson og kemst að því að þeir kjósa að sleppa því að setja sykur á innihaldslýsinguna þó að það sé eitthvað sem þeir bæta við. Sinnepið er nefnilega blandað af þeim, sinnepsduft, sykur og eitthvað annað. Ég myndi skilja það ef að þeir keyptu bara sinnep sem væri bætt út í en nei þeir búa það til sjálfir og telja sig ekki þurfa að skilgreina neitt nánar hvað það inniheldur.
Afhverju geta íslensk fyrirtæki ekki tekið upp á sitt einsdæmi að skilgreina nákvæmlega hvað er í vörum þeirra. Allaveganna því sem þeir bæta sjálfir við vörur sínar.
Svo mikið er víst að ég tek ekki sénsinn á því að versla við þá aftur, allaveganna ekki á næstunni.

sunnudagur, 1. júní 2008

Granola (muesli)

Einföld Granola uppskrift sem er mjög góð

1 bolli Quinoa flögur
1 bolli Hirsi (millet) flögur
1/2 bolli kókosmjöl
1/4 bolli sesamfræ
1/4 bolli Agave Síróp
Rúsínur og aðrir þurrkaðir ávextir eftir smekk.

Blandið saman i skál öllum hráefnunum nema þurrkuðu ávöxtunum. Blandið saman með fingurgómunum þannig að Agave sírópið dreifist jafnt en reynið að kremja ekki flögurnar.
Dreifið úr blöndunni á ofnskúffu með bökunarpappír á. Setjið í 100 gráðu heitan ofn og passið að hafa blásturinn EKKI á. Bakist í 20 mínútur en hrærið í blöndunni og dreifið aftur úr henni allavegann tvisvar sinnum. Lækkið hitann í 50 gráður og bakið áfram þar til gullið og engin raki er eftir í blöndunni. Tekur c.a 20 mínútur og hrærið annarslagið í blöndunni á meðan.
Þegar þið takið blönduna úr ofninum bætið þá þurrkuðu ávöxtunum við, leyfið blöndunni að kólna og geymið í loftþéttu íláti.